Kosningar 2022 – aðsend grein frá Önnu Sólveigu Smáradóttur.
Hugmyndin og ákvörðunin um að reka og styðja við heilsueflandi samfélag er ekki bara plagg eða vottun að nafninu til. Heilsuefling og lýðheilsa þverar öll svið stjórnsýslunnar: Skóla-og frístund, skipulags og umhverfissvið, velferðar-og mannréttindasvið og menningu. Markmiðið er alltaf að bæta heilsu fólks, auka möguleika til virkni og þátttöku og þar með að bæta lífsgæði.
Nálægðin við náttúruperlur
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreinir heilsu sem samspil félagslegra, andlegra og líkamlegra þátta sem hafi áhrif hver á annan.
Mikilvægt er að sem flestir hafi aðgengi að fjölbreyttum hreyfiúrræðum, bæði innanhúss og á opnum svæðum þar sem ungir sem aldnir og allir þar á milli geti stundað hreyfingu. Í bænum okkar og í nágrenni eru kjöraðstæður til að uppfylla þessi markmið og bæta það sem á vantar. Við höfum sandinn, fjörurnar og fjallið! Samfélagið þarf að búa til þær aðstæður að sem flestir hafi aðgengi að þessum náttúruperlum. Við þurfum að klára að tengja saman stíga, halda áfram að fjölga bekkjum meðfram þeim, auðvelda aðgengi að fjörunum og setja upp og viðhalda leiktækjum sem hvetja til útivistar og hreyfingar.
Við erum svo lánsöm að íþróttahreyfingin í bænum er öflug, þátttakendur eru margir og hennar hlutverk er stórt í heilsueflingunni. Íþróttahreyfingin er í auknum mæli farin að leggja áherslu á heilsueflingu í starfi sínu og þar með ná til sem flestra aldurshópa og getustiga. Við erum líka svo lánsöm að bygging nýrrar íþróttamiðstöðvar er hafin með það að markmiði að íbúum Akraness og gestum, bjóðist það besta sem völ er á.
Ávísun á þátttöku
Margt er vel gert í bænum og við skulum halda áfram að standa okkur vel. Hreyfiávísunin frá Akraneskaupstað fyrir 18 ára og eldri á covid-tímabilinu var frábært framtak sem mætti halda áfram með. Hægt væri að útvíkka þetta framtak með ávísun á menningarviðburði og tómstundastarf að auki sem viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn og hvetja þar með til þátttöku. Þá þarf að huga að því að ná unglingunum okkar aftur inn í ýmis konar frístundastarf og hreyfivirkni. Þátttaka í fjölbreyttu frístundastarfi eykur andlega og félagslega heilsu íbúa á öllum aldri . Samfélags-og atvinnuþátttaka styður við það að viðhalda og bæta heilsu.
„Sönsum“ þetta saman
Lýðheilsa og forvarnir er fjárfesting sem sparar fjármuni til lengri tíma litið og ætti að vera hluti af allri ákvarðanatöku hvort sem um ræðir skipulag hverfa, velferð eða skóla-, íþrótta-og tómstundastarf.
Við þurfum að halda uppbyggingunni áfram en á sama tíma að ná utan um þá þjónustu sem þarf að vera til að mynda öflugt samfélag. Öflugt samfélag laðar til sín fólk, fjárfesta og fyrirtæki og þannig má halda uppbyggingunni áfram. Verum stolt af því sem verið er að gera vel!
Við verðum aldrei öll sammála um það hvernig hlutir eru nákvæmlega gerðir eða hvaða litur okkur þykir fallegastur. En þetta er bærinn okkar og við getum öll litið í eigin barm og skoðað hvað við getum lagt af mörkum til að gera Akranes betra fyrir okkur öll. Enginn getur allt en allir geta eitthvað. Við vitum og höfum séð að magnaðir hlutir geta gerst þegar við sameinumst í gula litnum og íþróttabærinn Akranes hefur oftar en ekki verið okkar sameiningartákn. Það er bjart framundan. Sönsum Skagann saman!
xS- Að sjálfsögðu!
Anna Sólveig Smáradóttir.
Höfundur er sjúkraþjálfari og skipar 4.sæti Samfylkingarinnar á Akranesi