Nýr kraftur á traustum grunni – fyrir Akranes

Kosningar 2022 – aðsend grein frá Sigríði Elínu Sigurðardóttur.

Við erum virkilega heppin þjóð að búa yfir lýðræði. Því lýðræðið er jú ekki sjálfgefið og því er mikilvægt fyrir alla sem hafa kosningarrétt að nýta þann rétt. Á fjögurra ára fresti gefst okkur tækifæri til að velja hvaða fólk mun stjórnar bæjarfélaginu okkar og finnst mér tími til kominn á að stokka upp í samfélaginu okkar, fá nýtt og fersk blóð inn. Listi Sjálfstæðisflokksins þetta tímabil er fullur af fjölbreytileika. Fólki með frábærar hugmyndir og sýn á hvernig þau vilja sjá Akranes vaxa og dafna.

Sjálfstæðisflokkurinn er til þjónustu reiðubúinn að vinna fyrir ykkur og ykkar framtíð kæru íbúar. Við leggjum áherslu á að standa vörð um fyrirtækin í bænum og viljum við passa vel upp á þau og styðja þétt við bakið á þeim, sem og fólkinu sem vinnur hart að sér í velgengni þessara fyrirtækja. Jafnframt viljum við vera framúrskarandi bær þegar kemur að umhverfismálum og veit ég að það er okkur flestum hjartans mál að við varðveitum auðlindir landsins og hugsum vel um bæinn okkar og jörðina. Umhverfismálin hafa setið á hakanum síðustu ár en við viljum kippa því í lag. Það sem við viljum gera er t.d. að koma á grenndarstöðvum innanbæjar svo íbúar geti losað sig við endurvinnsluefni á umhverfisvænni hátt, bæta við lífrænni flokkun.

Akranes hefur lengi verið þekkt fyrir það að vera íþróttasamfélag og megum við svo sannarlega vera stolt af því. Fjölbreyttar íþróttir eru í boði fyrir börn og unglinga og ættu flestir að geta fundið íþrótt við sitt hæfi. Við getum líka verið afar stolt af skólakerfinu okkar, en þar vinna þvílíkir fagmenn sem sinna klárlega einu af mikilvægustu verkefnum samfélagsins þar sem þau sjá um að taka þátt í uppeldi barnanna okkar að stórum hluta og móta þau inn í samfélagið okkar. Við viljum því vera til staðar fyrir þennan mikilvæga hóp starsfmanna. 

Við viljum einnig sjá meiri nýsköpun í atvinnumálum. Störf án staðsetningar er nýtt fyrirbæri sem fellur vel í takt við raunveruleikann eins og við þekkjum hann í dag. Blessaða kórónuveiran sem allir þekkja hefur heldur betur kennt okkur að nýta tæknina, þá sérstaklega í skólastarfi og innan atvinnulífsins. Til þess að samfélagið okkar á Akranesi haldi áfram að stækka og blómstra sem fjölbreytt samfélag þarf að vera atvinna fyrir það fólk sem flyst hingað, og þar koma störf án staðsetningar sterkt inn. Uppbygginginn í Flóahverfinu – grænir iðngarðar, er frábært verkefni fyrir atvinnulífið á Akranesi. Því þá munum við fá til okkar ný fyrirtæki sem eflaust mun búa til ný og fleiri störf í þokkabót. 

Það má því segja að hér á Akranesi leynist flóran öll af frábærum tækifærum og er því í höndum okkar íbúa að nýta þessi tækifæri vel og gera Akranes að ennþá betri stað til að búa á. Við þurfum því að spýta í lófana og halda áfram þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað síðustu ár – á Akranesi er nefnilega  enginn tími fyrir pásur, það er bara fulla ferð áfram! Rétt að lokum vil ég minna þig á, kæri kjósandi, að nýta kosningarréttinn þinn. Því ÞÚ getur haft áhrif.

Sigríður Elín Sigurðardóttir – skipar fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins.