Kvennalið ÍA með stórsigur gegn Fjölni í 1. umferð Mjólkurbikarkeppni KSÍ



Kvennalið ÍA í knattspyrnu er komið áfram í 16-liða úrslit í Mjólkurbikarkeppni KSÍ eftir stórsigur, 6-1, gegn liði Fjölnis úr Grafarvogi í Akraneshöllinni í gærkvöld.

Leikurinn var í 1. umferð keppninnar og eins og áður segir verður ÍA í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitum keppninnar.

Hin þaulreyndi leikmaður Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði fyrsta markið á 9. mínútu áður en Ylfa Laxdal Unnarsdóttir bætti við öðru marki á 25. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik.

Lilja Björg Ólafsdóttir skoraði þriðja mark ÍA á 64. mínútu og skömmu síðar skoruðu gestirnir og minnkuðu muninn í 3-1.

Unnur Ýr Haraldsdóttir bætti við fjórða markinu og sínu öðru marki í leiknum á 67. mínútu – staðan 4-1.

Thelma Björg Rafnkelsdóttir bætti fimmta markinu við fimm mínútum fyrir leikslok, staðan 5-1 og Lilja Björg Ólafsdóttir gulltryggði 6-1 sigur með sjötta marki ÍA í uppbótartíma.