Karlalið ÍA í knattspyrnu lék æfingaleik í gær á Álftanesvelli gegn Vestra – sem leikur í næst efstu deild.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, þekkir vel til Vestraliðsins en hann þjálfaði liðið í fyrra og náði góðum árangri með liðið – sem fór alla leið í undanúrslit Mjólkurbikarkeppni KSÍ eftir sigur gegn Valsmönnum í átta liða úrslitum.
Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson er þjálfari Vestra en hann tók við liðinu þegar Jón Þór var ráðinn sem þjálfari ÍA eftir að Jóhannes Karl Guðjónsson fékk starf sem aðstoðarlandsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands.
Lið ÍA var að mestu skipað leikmönnum sem hafa ekki leikið mikið með aðalliði ÍA í Bestu deildinni á þessari leiktíð.
Leikurinn var jafn og spennandi en lið Vestra skoraði eina mark leiksins rétt fyrir leikslok.
Varnarmaðurinn Wout Droste frá Hollandi lék sinn fyrsta leik eftir langa fjarveru vegna meiðsla og sömu sögu er að segja af Árni Salvari Heimissyni sem lék síðustu 15 mínúturnar í vörn ÍA eftir erfiða meiðslahrinu undanfarin misseri.
Einn fyrrum leikmaður ÍA er í liði Vestra, markvörðurinn Marvin Steinarsson, en hann lék síðustu 45 mínúturnar í leiknum í gær.
Hér má sjá myndasyrpu frá leiknum sem ljósmyndari Skagafrétta tók í blíðviðrinu á Álftanesi í gær.
Smelltu hér fyrir myndasyrpuna á ljósmyndavef Skagafrétta:
Byrjunarlið ÍA var þannig skipað.
Markvörður: Árni Marinó Einarsson,
Vörn: Gabríel Þór Þórðarson, Wout Droste, Ísak Örn Elvarsson (leikmaður ÍA í láni hjá Kára), Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson (leikmaður ÍA í láni hjá Kára).
Miðja: Ármann Ingi Finnbogason, Hallur Flosason, Brynjar Snær Pálsson, Benedikt V. Warén (í láni frá Breiðabliki út tímabilið).
Framherjar: Ingi Þór Sigurðsson, Guðmundur Tyrfingsson.
Varamenn sem komu við sögu í leiknum: Haukur Andri Haraldsson, Daníel Jóhannesson, Árni Salvar Heimisson og Hilmar Hilmarsson.