Grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2022



Í dag var tilkynnt hvaða söfn eru tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2022. Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

Byggðasafnið í Görðum á Akranesi fær tilnefningu fyrir nýja grunnsýningu sem opnuð var í maí í fyrra.

Nánar hér:

Það er mat valnefndar að ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum sé framúrskarandi verkefni, þar sem faglegt safnastarf og vönduð úrvinnsla fara saman. Þar er hugað að því að ólíkir gestir finni eitthvað við sitt hæfi og að hver og einn geti notið sýningarinnar á sínum hraða og forsendum.  Það er augljóst að grunnsýningin er stórt verkefni sem hefur kostað mikla vinnu en snjallar lausnir hafa gert safninu kleift að skapa sýningu sem stenst fyllilega kröfur samtímans um fjölbreytta miðlun og aðgengileika.

Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin verða afhent. Í ár bárust vel á annan tug tilnefninga, ýmist frá söfnunum sjálfum og almenningi. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí, í Safnahúsinu við Hverfisgötu.



Byggðasafnið í Görðum – ný grunnsýning

Ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum, Akranesi var opnuð þann 13. maí 2021. Sýningin er staðsett í aðalsýningarhúsi safnsins á safnsvæðinu. Á sýningunni er líf íbúa á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit skoðað og sagan rakin frá sjávarþorpi og sveitasamfélagi á 17. öld til nútímalegs kaupstaðar með á áttunda þúsund íbúa. Sýningin skiptist í fjóra hluta það er lífið til sjós, lífið í landi, lífið í vinnu og lífið í leik. Gestir fá að kynnast einstaklingum sem settu svip sinn á samfélagið og heyra sögur af smáum og stórum afrekum.

Sýningin er byggð á samspili muna, mynda og frásagna og eru ýmsar miðlunarleiðir notaðar til að leiða gesti um króka og kima bæði hússins og sögunnar. Notkun ljósmynda og kvikmynda er vel unnin og færir gestinn inn í nálæga og fjarlæga fortíð. Vönduð hljóðleiðsögn veitir gestum aðgang að upplýsingum og frásögnum og er áhugaverður hluti af sýningunni. Sagan lifnar við í gegnum vel unna texta þar sem persónulegar frásagnir hljóma í bland við annan fróðleik. Auk þess sem gestir geta þrætt sýninguna með ratleik í hönd sem byggir fyrst og fremst á sjónrænni upplifun.

Vinnan við gerð sýningar stóð frá byrjun árs 2017 og fram í maí 2021 en samhliða grunnsýningarvinnu var farið í mikla viðhaldsvinnu á húsnæði safnsins og aðgengi að byggingunni lagað. Fleira á svæði safnsins hefur verið endurbætt og má sérstaklega nefna nýtt bátahús sem er glæsileg framkvæmd.

Það er einstakt afrek hjá ekki stærra safni en Byggðasafninu í Görðum og eigendum þess að koma á fót grunnsýningu á borð við þessa. Hvergi er gefinn afsláttur í framsetningu og umgjörð, heldur er framúrskarandi hönnun nýtt til að leysa ýmis mál með eftirtektarverðum hætti.  Fjölmargar skemmtilegar lausnir bera hugmyndaauðgi hönnuða og aðstandenda vott.

Það er mat valnefndar að ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum sé framúrskarandi verkefni, þar sem faglegt safnastarf og vönduð úrvinnsla fara saman. Þar er hugað að því að ólíkir gestir finni eitthvað við sitt hæfi og að hver og einn geti notið sýningarinnar á sínum hraða og forsendum.  Það er augljóst að grunnsýningin er stórt verkefni sem hefur kostað mikla vinnu en snjallar lausnir hafa gert safninu kleift að skapa sýningu sem stenst fyllilega kröfur samtímans um fjölbreytta miðlun og aðgengileika.