Hagkvæmni og gæði höfð að leiðarljósi



Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Liv Åse Skarstad

Í febrúar 2019 var skipaður starfshópur á vegum bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar sem átti að taka til gagngerrar endurskoðunar mötuneytismál bæjarins. Starfshópurinn átti að koma með tillögu um hvernig haga skyldi framtíðarskipulagi mötuneytismála í bæði leik- og grunnskólum kaupstaðarins, ásamt öðrum þjónustustofnunum bæjarins.

Markmið hópsins var m.a. að skoða hvort hægt væri að hagræða í innkaupum og samþætta matseðla stofnana. Einnig var markmið hópsins að skoða hvernig nálgast mætti lýðheilsumarkmiðin betur ef óbreytt fyrirkomulag væri áfram í  mötuneytum bæjarins.

Samkvæmt erindisbréfi átti starfshópurinn að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi mötuneytismála á Akranesi, skoða innkaup, meta gæði máltíða út frá lýðheilsusjónarmiðum og skoða hvort mögulegt væri að eldhús Höfða yrði hugsanlega notað  fyrir sameiginlegt eldhús stofnana bæjarins. Hópurinn átti jafnframt að  leitast við  að hafa til hliðsjónar markmið um Heilsueflandi samfélag í allri sinni vinnu og greiningu.

Undirrituð gegndi varaformennsku í starfshópnum sem fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar en aðrir sem í honum sátu voru fulltrúi minnihluta bæjarstjórnar, sviðsstjórar skóla- og frístundasviðs og velferðar- og mannréttindasviðs. Í starfshópnum sátu einnig verkefnastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og síðar tók framkvæmdastjóri Höfða sæti í starfshópnum. 

Meðlimir starfshópsins lögðu á sig mikla og vandaða vinnu við að rýna gögn, tala við fjölmarga sérfræðinga sem höfðu þekkingu á mötuneytismálum og leituðu upplýsinga víða. Rætt var við stjórnendur leik- og grunnskóla, stjórnendur sambærilegra eldhúsa í Reykjavík, næringarfræðinga, stjórnendur eldhúsa og fjölmarga aðra. 

Frá upphafi var verkefnið ljóst. Skoða skyldi hvernig hægt væri að ná meiri hagkvæmni í rekstri bæjarins en einnig hvernig hægt væri að hámarka gæði matarins og hvernig ætti að uppfylla allar nútímakröfur í mötuneytismálum.

Þegar byrjað var að rýna í rekstrartölur stofnana bæjarins kom fljótt í ljós að erfitt var að henda reiður á hversu mikill kostnaður lá í matarinnkaupum og hvað hver máltíð kostaði. Eitt var þó ljóst frá upphafi að engin stofnun bæjarins var með einhvers konar samnýtt innkaup. Algengt var að hver stjórnandi fyrir sig stjórnaði innkaupum sinnar stofnunar og sá um af hverjum skyldi versla og hvernig þeim skyldi háttað. Engin samræmd innkaup áttu sér stað og af þeim sökum var kostnaður því mjög breytilegur milli stofnana. Það var auðséð að þetta væri eitthvað sem Akraneskaupstaður þyrfti að breyta. 

Með þeirri einföldu aðgerð að samræma innkaup bæjarins væri hægt að auka hagkvæmni í innkaupum og sjá til þess að stjórnendur stofnana bæjarins sætu við sama borð þegar kæmi að innkaupum. Með þess konar hagræðingu fæst því meira svigrúm til að auka enn frekar gæði matar til notenda.

Allir eru að leggja sig fram við að tryggja börnunum okkar hollt og gott fæði og mikilvæg vinna fer fram innan mötuneyta bæjarins. En við þurfum alltaf að vera á tánum og skoða hvað hægt er að gera betur og hvernig skólarnir okkar og aðrar stofnanir bæjarins geti áfram boðið upp á fjölbreytt, hollt og gott fæði.

Með því að vera með eitt mötuneyti sem þjónustar allar stofnanir bæjarins væri hægt að bjóða upp á meiri stærðarhagkvæmni en áður hefur verið hægt og möguleiki væri á að auka gæði matarins enn frekar. Mikilvægt er að ráða fagfólk sem býr yfir nauðsynlegri þekkingu á rekstri stóreldhúsa sem hafa haldgóða kunnáttu á meðferð og nýtingu matvæla, svo hægt sé að sporna enn betur við matarsóun. Einn af kostunum við að hafa eitt mötuneyti væri einnig sá að þá gæfist betra rúm til að þjónusta þann ört stækkandi hóps barna sem glíma við einhvers konar fæðuóþol eða kjósa vegan/grænkerafæði. Einnig má nefna þann hluta barna sem eru annarrar trúar og borða ekki samskonar fæði og önnur börn. 

Í ört stækkandi þjóðfélagi ber okkur áfram skylda til að hlúa að þessum börnum með öllum tiltækum ráðum og sjá til þess að öll okkar börn sitji við sama borð.

Liv Åse Skarstad
Höfundur er varabæjarfulltrúi og skipar annað sæti á lista Framsóknar og frjálsra til næstu sveitarstjórnarkosninga