Stundum tala annarra manna verk best



Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Einari Brandssyni:

Þegar líður að kosningum líta stjórnmálamenn einatt yfir farinn veg og tíunda hverju hafi verið áorkað að líðandi kjörtímabili. Svo er það einnig með stjórnmálamenn á Akranesi. Sá meirihluti sem nú skilar af sér verkum sínum, Framsókn og Samfylking, hefur ýmsu áorkað. Sú uppbygging er að mestu samkvæmt metnaðarfullu uppbyggingarskipulagi innviða sem meirihluti Sjálfstæðsflokksins og Bjartar framtíðar lagði grunninn að kjörtímabilið 2014-2018. Blessunarlega fylgdi núverandi meirihluti þeirri stefnumótun. Þessari fyrirhuguðu uppbyggingu voru ekki allir sammála á sínum  tíma og töldu sumir bæjarfulltrúar núverandi meirihluti of djarft farið. Flestum þessara verka er nú lokið en því miður eru einhver enn í vinnslu.  

Rétt er af þessu tilefni að tæpa á nokkrum þeirra framfaramála. Mikill metnaður var lagður í uppbyggingu íþrótttamannvirkja og má þar nefna Garðavelli, reiðhöll Dreyra og fimleikahús sem öllum er því sem næst lokið. Þá voru lögð drög að mikilli uppbyggingu á Jaðarsbökkum en núverandi meirihluti hægði á þeirri uppbyggingu svo hún hefur ekki skilað sér ennþá. Vonandi næst þó að klára fyrsta áfanga þeirrar uppbyggingar á næsta kjörtímabili. 

Á kjörtímabilinu 2014-2018 var hrundið af stað uppbyggingu á íbúðakjörnum fyrir fólk með fötlun. Íbúðakjarni á Beikiskógum  var fyrsti áfanginn og hefur hann nú verið tekinn í notkun. Því miður hafa ekki risið fleiri kjarnar.  Lóð sem var frátekin fyrir næsta kjarna var úthlutað til annara nota og hefur í kjölfarið ekki tekist að finna aðra lóð undir íbúðarkjarna.  

Þjónustumiðstöð fyrir eldriborgara var tekin í notkun á yfirstandandi kjörtímabili. Stefnumótun og skipulagning þeirrar framkvæmdar gekk ekki átakalaust fyrir sig svo ekki sé sterkar að orðið kveðið. Ekki er á neinn hallað þó Ólafur Adolfsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sé nefndur fyrstur þegar sú leið var mörkuð.  Nú vildu allir Ólaf kveðið hafa og í dag finnst í raun enginn sem viðurkennir að hafa verið á móti þeirri uppbyggingu.

Af svipuðum  toga er bygging Guðlaugar. Sú átti nú ekki marga bandamenn en það var meirihluti Sjálfstæðisflokksins sem á endanum kom byggingu hennar til leiðar. Núverandi meirihluti fékk hins vegar heiðurinn af  því að taka hana í notkun. 

Núverandi meirihluti hefur verið í mesta basli með skipulagsbreytingar allt þetta kjörtímabil. Afleiðingin er sú að ekki hefur tekist að hefja uppbyggingu á einu einasta íbúðar húsi á svæði sem núverandi meirihluti hefur skipulagt. Það basl hefur valdið töfum í uppbyggingu í bænum, því miður.  

Af þessari upptalningu minni má best sjá að það skiptir miklu máli hverjir halda um stjórnvöl bæjarins. Ekki síst þegar horft er lengra fram í tímann. Skipulagsmál eru langtímaverkefni sem krefjast langtímahugsunar. Þar þarf vandaðan en fumlausan undirbúning svo ávallt megi tryggja uppbyggingu í takt við þarfir íbúa hverju sinni. Sjálfstæðisflokkurinn vill taka aftur til við markviss skipulagsmál til lengri tíma fái hann til þess styrk hjá kjósendum. 

Þess vegna óska ég þess kjósandi góður að þú setjir x við D. Fyrir Akranes.

Einar Brandsson og skipa annað sætið á lista sjálfstæðismanna hér á Akranesi