Sturluð staðreynd um borðaklippingar !



Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Rakel Óskarsdóttur:

Í tilefni þess að nú líður senn að bæjarstjórnarkosningum og frambjóðendur draga fram afrekaskrá sína er gott að líta yfir fjárfestingar bæjarins síðastliðin ár.

Undanfarna daga hefur skapast mikill þrýstingur á að vígja formlega Þjónustumiðstöð aldraðra við Dalbraut 4, Fimleikahúsið við Vesturgötu og reiðhöll Dreyra í Æðarodda. Heimsfaraldurinn setti vissulega sitt mark á að ekki var hægt að hafa slíka viðburði þegar mannvirkin voru tekin í notkun, sem er miður. 

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akraness, bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum,  leggja mikla áherslu á að klára gjörninginn fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar og bera fyrir sig að eðlilegt sé að núverandi bæjarstjórn stæri sig af þessum framkvæmdum en ekki þeir sem á eftir munu koma. Þó eru ýmis nýleg dæmi um að nýkosin bæjarstjórn taki að sér slík embættisverk eins og t.d. þegar Guðlaug við Langasand og Frístundamiðstöðin Garðavellir voru vígð. En þær framkvæmdir voru að mestu unnar árin 2014-2018 í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar.

Í sögulegu samhengi þá er hollt að rifja upp tilurð þessara framkvæmda. 

Guðlaug; Samfylkingin hafði miklar efasemdir um uppbyggingu þessa mannvirkis og sakaði þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar um óábyrga fjármálastjórnun og að framkvæmdin myndi þyngja rekstur bæjarsjóðs til framtíðar. Samfylkingin samþykkti ekki fjárfestingar- og framkvæmdaráætlun fyrir árið 2016 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2017-2019. 

Fimleikahús við Vesturgötu; Samfylkingin var mótfallin því að byggja nýtt fimleikahús við Vesturgötu og kaus að horfa frekar til Jaðarsbakka og börðust hart fyrir því. Vilji fimleikafélagsins var hins vegar skýr, um að byggja íþróttamannvirkið á Vesturgötu. Samfylkingin samþykkti ekki umrædda deiliskipulagsbreytingu. 

Í vikunni stendur til að vígja mannvirkið formlega en fimleikafélagið var búið að undirbúa sérstaka opnun 2. júní þar sem til stóð að vígja húsið, halda stórglæsilega fimleikasýningu, fjölskyldugrill og almenna fjáröflun fyrir félagið. Hugmyndir meirihluta bæjarstjórnar, Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum, eru hins vegar aðrar því húsið skal vígt og svo getur fimleikafélagið haldið sínu striki á áætluðum tíma. Ekki er hægt að horfa á þetta með öðrum augum en að meirihlutinn kjósi að taka opnunina í sínar hendur og þar af leiðandi slá á hugmyndir fimleikafélagsins. 

Þjónustumiðstöð við Dalbraut 4; Til að gera langa sögu stutt þá ákvað sú bæjarstjórn sem starfaði frá 2010-2014 að færa starfsemi FEBAN í vöruskemmu ÞÞÞ við Dalbraut 6. Nýr meirihluti sem tók við árið 2014, Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð, hafði allt aðrar hugmyndir og tók málið upp aftur sem endaði með þeim farsæla hætti að vöruskemma ÞÞÞ var rifin og glæsilegt nýtt fjölbýlishús sem hýsir félagsstarf FEBAN  á jarðhæð reis á Dalbraut 4. Samfylkingin samþykkti ekki fjárfestingar og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar árið 2018 og óttaðist að þar hafi verið gerð tilraun til að lofa umfram það sem efni stóðu til og skapa um leið óraunhæfar væntingar hjá bæjarbúum. Fjárfestingaráætlunin hljóðaði þá upp á 836 mkr. en Þjónustumiðstöðin við Dalbraut 4 var eitt af þeim verkefnum. 

Fjárfestingaráætlun fyrir árið 2022 sem er kosningaár líkt og árið 2018 hljóðar upp á 2.609 mkr. og var samþykkt af öllum flokkum í bæjarstjórn. Merkilegt er að umrædd áætlun virðist ekki valda Samfylkingunni áhyggjum nú um að hún sé bólgin og skapi óraunhæfar væntingar hjá bæjarbúum!

Nú þegar örfáir dagar eru til kosninga þá klappar Samfylkingin sér á bakið og segir að algjört met sé í fjárfestingum hjá Akraneskaupstað. Um er að ræða fjárfestingar sem flestar voru ákveðnar í stjórnartíð Sjálfstæðismanna og Bjartrar framtíðar með stuðningi Framsóknar og frjálsra en ekki Samfylkingarinnar. 

Það er því mjög áhugavert að Samfylkingin komi fram nú í lok kjörtímabils með skærin á lofti til þess að klippa á borða þessara mannvirkja. 

Rakel Óskarsdóttir
Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins 2018-2022