Traustur rekstur – trygg framtíðKosningar 2022 – Aðsend grein frá Valgarði Lyngdal Jónssyni.

Á dögunum var ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness. Rétt eins og undanfarin ár sýnir ársreikningurinn frábæra rekstrarniðurstöðu, en rekstrarhagnaður bæjarins er 578 milljónir króna sem er mun betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.  Allar lykiltölur ársreikningsins sýna að rekstur Akraneskaupstaðar er mjög traustur, tekjur hækka á meðan skuldir eru greiddar niður og talsvert rými er til fjárfestinga og framkvæmda á vegum bæjarfélagsins.

Innviðaskuldin

Það er ekki einfalt mál að reka bæjarfélag og langt frá því að árangur sem þessi sé sjálfsagður. Bæjarstjórnir undangenginna kjörtímabila hafa borið gæfu til þess að stýra rekstri bæjarfélagsins af skynsemi með því að greiða niður skuldir um leið og þær hafa sýnt metnað til að standa vörð um góða þjónustu bæjarins í hvívetna. Þetta hefur þó á köflum kallað á mjög harða forgangsröðun og segja má að annars konar skuld hafi safnast upp, þ.e. skuld bæjarins gagnvart íbúum í formi innviða og viðhalds.

Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hefur þó margt verið gert til að greiða inn á innviðaskuldina. Síðustu ár hafa verið metár hvað varðar fjárfestingar á vegum Akraneskaupstaðar og má þar nefna byggingar eins og fimleikahús, reiðhöll og leikskóla auk þess sem mikill kraftur hefur verið í endurbyggingu og viðhaldi gatna. Skuldin er þó hvergi nærri fullgreidd, enn bíða margar götur eftir lagfæringu og stórar framkvæmdir eru í undirbúningi í uppbyggingu íþrótta- og skólamannvirkja. Verkefnin eru næg, en við erum að vinna að þeim af krafti þó við getum ekki gert allt í einu áhlaupi.

Arðurinn skili sér til íbúa

Það heyrist stundum sagt að bæjarfélagið eigi ekki að reka með rekstrarafgangi því bæjarfélag sé ekki fyrirtæki. Það er rétt að bæjarfélagið er ekki fyrirtæki, enda er það ekki rekið eins og fyrirtæki. Afgangurinn af rekstri bæjarfélagsins er ekki tekinn út sem arður til hluthafa, heldur skilar hann sér áfram í uppbyggingu og fjárfestingar í mannvirkjum, innviðum og  ekki síst þjónustu til bæjarbúa. Það að reka bæjarfélagið með hagnaði styrkir stöðu okkar til fjárfestinga og gerir okkur kleift að ráðast í verkefni eins og byggingu leikskóla, umbætur á húsnæði grunnskólanna og hina stórhuga byggingu íþróttamannvirkja sem hafin er á Jaðarsbökkum. Á sterkum fjárhagslegum grunni getum við einnig byggt áætlanir okkar til lengri tíma og sýnt áræðni og metnað í uppbyggingu til framtíðar. Þetta á ekki hvað síst við um atvinnulífið þar sem sterk staða bæjarfélagsins gefur okkur möguleika á að sýna metnað, framsýni og samfélagslega ábyrgð þegar kemur að stuðningi við uppbyggingu atvinnulífs og fjölgun atvinnutækifæra. Þessa stöðu eiga bæjaryfirvöld að nýta sér til fullnustu á næstu árum.

Hefjum Bjarnalaug til fyrri virðingar

Halda þarf uppbyggingunni áfram og meðal þeirra verkefna sem Samfylkingin vill vinna að á næsta kjörtímabili eru bygging nýs leikskóla í neðri hluta bæjarins og fleiri búsetukostir fyrir fatlaða.

Bjarnalaug er ein af merkustu byggingum Akraness og má með sanni segja að hún eigi sérstakan stað í huga og hjörtum Akurnesinga. Þegar nýtt áhaldahús bæjarins verður byggt og sú starfsemi hverfur af Laugarbrautinni, skapast einstakt tækifæri til að búa til eitthvað spennandi og aðlaðandi á því svæði, hreyfi- og heilsuræktaraðstöðu utandyra og innan í fallegu umhverfi, með hina tignarlegu Bjarnalaug sem miðpunkt. Sundlaugarbyggingin sjálf fengi þá jafnframt löngu tímabært viðhald, bæði innanhúss og utan, auk þess sem tækifæri gæfist til að bæta aðgengi og búningsaðstöðu við laugina. Það þarf nefnilega ekki alltaf að byggja nýtt frá grunni til að skapa nýja hluti og Bjarnalaug á það svo sannarlega skilið að verða hafin til fyrri vegs og virðingar sem miðstöð heilsuræktar á Akranesi.

Ágæti kjósandi

Við í Samfylkingunni ætlum að halda áfram að reka bæinn okkar með skynsemi og hagsýni að leiðarljósi. Við ætlum að tryggja að arðurinn af góðum rekstri skili sér til bæjarbúa í formi mannvirkja, aðstöðu og þjónustu – í formi lífsgæða.

Við erum tilbúin, þess vegna óskum við eftir stuðningi þínum í kosningunum 14 maí!

XS – Að sjálfsögðu!

Höfundur skipar efsta sæti lista Samfylkingarinnar í bæjarstjórnarkosningunum 2022 á Akranesi.