Fjölmargir þjálfarar með tengingu á Akranes í fjölmennum útskriftarhóp KSÍ



Nýverið útskrifaði Knattspyrnusamband Ísland alls 19 þjálfara með KSÍ Pro og UEFA Pro þjálfararéttindi. Í útskriftarhópnum eru fjölmargir þjálfarar frá Akranesi.

Þjálfaragráðan KSÍ Pro er undanfari að UEFA Pro þjálfararéttindum – sem eru í efstu hillu í þjálfaramenntun í Evrópu.

Jón Þór Hauksson, núverandi þjálfari karlaliðs ÍA, var í útskriftarhópnum líkt og Ásmundur Haraldsson þjálfari Kára og aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins.

Þórður Þórðarson, Jóhannes Karl Guðjónsson – sem báðir hafa þjálfað karlalið ÍA luku einnig þessu námi líkt og Lúðvík Gunnarsson sem var áður yfirþjálfari yngri flokka ÍA en er í dag í þjálfarateymi KSÍ líkt og Jóhannes Karl. Þórður starfaði um margra ára skeið sem landsliðsþjálfari hjá KSÍ.

Helena Ólafsdóttir, fyrrum þjálfari kvennaliðs ÍA og íslenska kvennalandsliðsins er eina konan í hópnum.

Skagamaðurinn Arnar Gunnlaugsson – sem er þjálfari Íslands – og bikarmeistaraliðs Víkings úr Reykjavík, var einnig í þessum námshóp.

Námskeiðið hófst í febrúar 2020 og var búist við því að námið tæki 18 mánuði. Það hins vegar gekk ekki eftir í ljósi stöðunnar í samfélaginu vegna COVID-19, en nú hafa þjálfararnir verið útskrifaðir. Þetta er í fyrsta sinn sem KSÍ heldur KSÍ Pro/UEFA Pro þjálfaranámskeið.

Hægt er að sjá lista hér að neðan yfir þá þjálfara sem sátu námskeiðið.

Þjálfarar sem sátu námskeiðið:

Alfreð Elías Jóhannsson
Andri Hjörvar Albertsson
Arnar Gunnlaugsson
Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Guðni Haraldsson
Brynjar Björn Gunnarsson
Davíð Snorri Jónasson
Eysteinn Húni Hauksson
Gunnar Magnús Jónsson
Gunnar Guðmundsson
Heimir Guðjónsson
Helena Ólafsdóttir
Jóhannes Karl Guðjónsson
Jóhannes Karl Sigursteinsson
Jón Þór Hauksson
Jörundur Áki Sveinsson
Lúðvík Gunnarsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson
Þórður Þórðarson