Gamli miðbærinn fékk byr í seglinn á kraftmiklum stofnfundi Akratorgs



Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar:

Fjölmenni var á stofnfundi Miðbæjarsamtakanna Akratorgs sem fram fór í gær í Tónbergi, sal Tónlistaskólans. Íbúar á Akranesi eru greinilega áhugasamir um framtíð miðbæjarins við Akratorg og var mætingin eins og áður segir mjög góð.

Ólafur Páll Gunnarsson formaður Miðbæjarsamtakanna Akratorgs fór yfir helstu áhersluatriði Akratorgs. Í stuttu máli er tilgangur samtakanna að vernda, efla og byggja upp gamla miðbæinn. Jafnframt að stuðla að viðsnúningi í þróun síðustu ára þannig að miðbærinn verði aftur hringiða verslunar, þjónustu og mannlífs. Ólafur Páll fór yfir ýmsa áhugaverða punkta og þar var framtíð Landbankahússins rædd – en samtökin leggja mikla áherslu á að bæjaryfirvöld færi hluta af stjórnsýslu bæjarsins í húsið.

Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði var með áhugavert erindi á fundinum. Í máli hans kom fram að tækifærið á Akranesi til þess að efla miðbæinn og nýta þær grunnstoðir sem nú eru fyrir hendi séu einstakt.

Páll Jakob dró fram mikilvægi jafnvægis í grunngerð þeirra mannvirka og svæða sem einkenna líflega og áhugaverða miðbæi. Græn svæði og tengingar við náttúruna skipa þar stærsta hlutverkið til þess að mannlíf verði blómlegt á slíkum svæðum. Þar var skemmtileg saga af grænu svæði á Ráðhústorginu á Akureyri rauði þráðurinn – og sýndi fram á að einfaldar framkvæmdir geta breytt miklu hvað varðar mannlíf og upplifun. Páll Jakob vitnaði í ýmsar rannsóknir máli sínu til stuðnings og fundargestir kunnu vel að meta erindi Páls Jakobs.

Bjarnheiður Hallsdóttir stýrði pallborðsumræðum þar sem að fulltrúar framboðslistanna þriggja í bæjarstjórnarkosningunum 2022 sátu fyrir svöru. Jónína Margrét Sigmundsdóttir frá Samfylkingunni kom inn í stað Valgarðs Lyngdals Jónssonar oddvita framboðsins sem glímir við raddleysi um þessar mundir. Ragnar B. Sæmundsson oddviti Framsóknar og frjálsra og Líf Lárusdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins tóku einnig þátt í pallborðsumræðunum.

Mikill samhljómur var hjá frambjóðendunum um framtíð miðbæjarins á Akranesi. Öll framboðin eru sammála um að efla þurfi miðbæinn og margar áhugaverðar hugmyndir voru nefndar á fundinum í gær.

Framtíð Lansbankahússins var ein af spurningunum sem frambjóðendur þurftu að svara – og voru allir sammála um að fyrsta skrefið sé að vinna að endurbótum á húsinu. Mathöll á jarðhæð og skrifstofur á efri hæðum voru lausnir sem bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur nefndu. Framsóknarflokkurinn og frjálsir telur að í húsinu geti verið ýmis starfssemi en flokkurinn telur að fyrrum skrifstofur Sementsverksmiðjunnar við Mánabraut gæti einnig orðið virðulegt ráðhús með sterkari tengingu við uppbyggingu á Sementsreit. Uppbygging á Breiðarsvæðinu var einnig til umræðu en þar telja frambjóðendur að mikil tækifæri séu til staðar – sem efla muni gamla miðbæinn.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness flutti síðasta erindi fundarins. Hann fagnaði stofnun Miðbæjarsamtakanna Akratorgs – og er ánægður með þann kraft og ástríðu fyrir verkefninu sem íbúar á Akranesi hafa sýnt á undanförnum misserum. Sævar Freyr fór varlega í að tjá sig um hvort stjórnsýslan ætti að flytja í gamla Landsbankahúsið – en nefndi að til skemmri tíma væri hægt að leysa húsnæðisvanda Akraneskaupstaðar með slíkum lausnum. Sævar Freyr sagði ennfremur að styrkja þyrfti og efla miðbæinn og með allri þeirri uppbyggingu sem stendur fyrir dyrum í Sementsreit og á Breiðarsvæðinu væri bærinn í þeirri stöðu að ekki mætti klúðra því að gera miðbæjarsvæðið eftirsóknarvert fyrir alla þá sem þar vilja vera.

Upptaka af fundinum verður birt á skagafrettir.is á allra næstu dögum:

Myndir frá fundinum – frá Guðna Hannessyni.