Skólakerfi sem virkar fyrir alla – Fyrir AkranesKosningar 2022 – Aðsend grein frá Sigríði Elínu Sigurðardóttur:

Við getum verið afar stolt af skólakerfinu hérna á Akranesi, en þó er margt sem mætti betur fara. Í stefnuskránni okkar ræðum við um þörfina á því að byggja nýjan leikskóla staðsettum á Neðri Skaga þar sem um 40% barnanna býr en aðeins 15% leikskólarýma er. Því myndum við vilja leggja drög að nýjum leikskóla á næsta kjörtímabili. Eins með inntökualdur leikskólanna, við viljum lækka hann eins og aðstæður leyfa. Það eru mörg sóknarfæri í skólakerfinu hérna á Skaganum. Við myndum vilja innleiða aukna tækniþróun í skólunum til að viðhalda þróun og nýsköpun í skólakerfinu því tækjabúnaður hefur verið ábótavant síðustu ár. Við leggjum til að allir nemendur í 7-10 bekk hafi greiðann aðgang að tölvum sem myndi nýtast þeim til náms, þar sem tæknin er og verður svo ótrúlega stór partur af þeirra lífi. 

Við þurfum líka að vernda starfsfólkið okkar í skólunum, en það eru þvílíkir fagmenn sem vinna þessi mikilvægu störf og því ekki skrítið að þau hafi verið valin Skagamenn ársins í ár. Þau áttu það svo sannarlega skilið og þá sérstaklega fyrir þrautseigjuna sem þau sýndu við alla heimakennsluna í faraldrinum sem er að líða. Við þurfum líka að standa vörð um það unga fólk sem kýs að mennta sig sem kennarar en þetta eru dýrmætir tilvonandi starfsmenn sem við viljum ekki missa frá okkur. Við verðum að koma á móts við þau og skapa tækifæri fyrir þau. Með því að taka starfsnám hér í okkar skólum og mynda þannig tengingu þeirra við okkar skóla því það er mikilvægt að missa þetta fólk ekki á brott.

Við þurfum að hugsa langt, þó vísbendingar sýni að börnum fari fækkandi í skólanum, þá þurfum við samt að hafa skýra framtíðarsýn.Til að fjölga nemendum og fá fólk til okkar þurfum við að hafa atvinnu og húsnæði fyrir þau. Við þurfum að vera opin fyrir þeim möguleika að það þurfi að stækka grunnskólana í framtíðinni eða byggja nýja. Vera opin fyrir þeirri hugmynd að hafa yngri barnaskóla fyrir börn í 1-2 bekk. Við þurfum að vera á tánum, og því bannað að sofna á verði við að hunsa það sem þarfnast úrbóta.

Ég mun nota mína krafta í að gera Akranes að fjölskylduvænna samfélagi og vil ég hafa framúrskarandi skólakerfi á Skaganum – skólakerfi sem virkar fyrir alla. Við þurfum að koma á móts við börn og fjölskyldur þeirra og veita þeim þá aðstoð sem við getum veitt. Ég vil að Akranes verði eftirsóttaverður staður til að flytjast til með fjölskylduna sína og setjast hér að. 

Setjum okkur metnaðarfull og raunhæf langtíma markmið. Styðjum kennarastéttina og börnin því það eru jú þau sem munu stjórna þessu samfélagi einn daginn. Mennt er máttur og því er mikilvægt að allir hafi jafnt aðgengi og jöfn tækifæri í námi. Gerum Akranes að leiðtoga sveitarfélagi í menntamálum og keyrum fulla ferð áfram í nýsköpun og þróunarmálum innan skólakerfisins. Ég er manneskja sem læt verkin tala, og með því að setja X við D til að tryggja það að ykkar atkvæði fái inn manneskju sem hugsar um skóla og frístundamálin. 

Sigríður Elín Sigurðardóttir

4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins