Við erum á réttri leið – Höldum áframKosningar 2022 – Aðsend grein frá Ragnari Sæmundssyni og Elsu Láru Arnardóttur:

Fyrri umræða um ársreikning Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 hefur farið fram í bæjarstjórn Akraness. Seinni umræða um ársreikninginn fer fram 10. maí n.k.

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 578 milljónir króna eða 721 milljónum króna betri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir. Skuldaviðmið heldur áfram að lækka og er nú einungis 20% eða langt undir 150% hámarki sem kveðið er á um í lögum. Skuldir kaupstaðarins við lánastofnanir halda áfram að lækka og eru einungis 919 milljónir króna og hafa lækkað um 138 milljónir króna á milli ára. Rekstur sveitarfélaga eru undir virku eftirliti, ekki bara frá eftirlitstofnunum ríkisins heldur líka íbúum og öðrum hagsmunaraðilum. Eftirlit og eftirfylgni veitir þeim sem fara með fjármál kaupstaðarins á hverjum tíma nauðsynlegt aðhald. Því er áhugavert að bera ársreikning Akraneskaupstaðar saman við ársreikninga nokkura af þeim sveitafélögum sem við berum okkur oft saman við. Til samanburðar er skuldaviðmið samstæðu Árborgar 138,5%, skuldaviðmið Reykjavíkurborgar fyrir A hluta 61% en skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar án OR 93%, skuldaviðmið Garðabæjar er svo 71% og í Mosfellsbæ er það 102.1%. Það er þvi óhætt að halda því fram að staðan hér á Akranesi sé sterk og á því byggjum við. 

Heildartekjur Akraneskaupstaðar voru rúmir 9,4 milljaðar og voru því samtals rúmum 1,1 milljarði yfir áætlun ársins. Veltufé frá rekstri hjá samstæðu var tæpt 17% af heildartekjum eða rúmir 1,5 milljarðar og er það 910 milljónum betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Handbært fé í árslok var tæpur 1,6 milljarður og lækkaði um 239 milljónir á árinu vegna mikillar innviðauppbyggingar í samfélaginu og einnig hafði niðurgreiðsla skulda og skuldbindinga áhrif en þær voru 596 milljónir á árinu.

Framlegðarhlutfall hækkaði verulega á milli ára, veltufjárhlutfall er enn mjög sterkt og skuldahlutfall fer áfram lækkandi og er 73% í árslok 2021 en var 84% í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall er í árslok 60% og hækkar um 1%. 

Niðurstaða ársreikningsins er verulega ánægjuleg. Þessi afar góða niðurstaða er til komin vegna ábyrgrar og traustrar fjámálastjórnar. Á árinu 2021 jukust skatttekjur Akraneskaupstaðar um 516 milljónir frá fyrra ári, framlög Jöfnunarsjóðs hækkuðu um 296 milljónir frá fyrra ári og aðrar tekjur jukust um 460 milljónir á milli ára.

Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun. Heildareignir í lok árs námu samtals rúmum 15 milljörðum króna og hækkuðu um 706 milljónir króna milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals rúmum 6,5 milljörðum króna og hækkuðu um 68 milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir lækkuðu um 138 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 141 milljón króna vegna áhrifa hækkunar lífaldurs á lífeyrisréttindi og skammtímaskuldir hækkuðu um 66 milljónir króna. Rekstrarafgangur ársins var jákvæður um 507 milljónir króna fyrir A hluta og jákvæður um 71 milljón króna fyrir B hluta. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá mikinn viðsnúning í rekstri Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis á árinu 2021. Rekstrarniðurstaða Höfða var jákvæð um rúmar 65 milljónir króna á meðan áætlun ársins gerði ráð fyrir rúmlega 14 milljón króna neikvæðri niðurstöðu.

Ábyrg fjármálastjórn skapar svigrúm til þess að lækka álögur en á sama tíma bæta þjónustu. Á þessu kjörtímabili hefur álagsprósenta á íbúðar- og atvinnuhúsnæði verið lækkuð töluvert og þegar borin eru saman sveitarfélögin á SV horni landsins kemur kaupstaðurinn mjög vel út. Sú rekstrarniðurstaða sem nú hefur verið kynnt gefur okkur tækifæri til að halda áfram á sömu braut. Að hafa burði til þess að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki á sama tíma og fram fer gríðarlega öflug innviðauppbygging endurspeglar sterka stöðu bæjarfélagsins.

Samfélag í sókn

Á síðasta ári voru fjárfestingar hjá Akraneskaupstað rúmur milljarður króna og óhætt er að segja að mikið uppbyggingarskeið sé hafið innan samfélagsins. Meðal helstu framkvæmda á árinu 2021 voru 221 milljónir króna settar í nýja þjónustumiðstöð við Dalbraut en þar er starfsemi Feban til húsa og sem stendur bæjarskrifstofur Akraneskaupstaðar. Rúmar 200 milljónir voru settar í uppbyggingu á nýjum leikskóla í Skógarhverfi. Þegar sú glæsilega bygging verður tilbúin  munu vinnuaðstæður starfsmanna og nemenda í leikskólum bæjarins aukast verulega en einnig mun aukið svigrúm verða til að lækka inntökualdur barna í leikskóla bæjarins. Fjármagn að upphæð 116 milljónir fór í breytingar á Grundaskóla, m.a. vegna loftgæðamála. Auk þessa var fjármagn sett í endurbætur á götum bæjarins, í nýframkvæmdir í gatnagerð og gangstíga, í uppbyggingu íþróttamannvirkja og í Reiðhöll Dreyra svo fátt eitt sé nefnt.

Í fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun fyrir núverandi ár var samþykkt að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar upp á rúmlega 2,1 milljarða króna. Stærstu fjárfestingarverkefnin á þessu ári eru uppbygging samfélagsmiðstöðvar að Dalbraut, uppbygging íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum, endurbætur á skólahúsnæði og bygging nýs leikskóla í Skógarhverfi. Jafnframt er gert ráð fyrir að byggja nýjan þjónustukjarna fyrir fatlaða, byggja nýtt áhaldahús og auk þessa sem úthlutað verður lóðum í Skógarhverfi 3C og 5 og unnið að verulegum framkvæmdum í gatnagerð í Skógarhverfi og Flóahverfi. Ásamt þessu verður áfram unnið að mikilvægu viðhaldi eldri gatna.

Af þessari miklu innviðauppbyggingu má sjá að Akranes er samfélag í sókn. Unnið er eftir skýrri framtíðarsýn með það að markmiði að gera góðan bæ að enn betri bæ.Höldum áfram metnaðarfullu uppbyggingarstarfi á traustum grunni. Við erum hvergi nærri hætt.

Að setja X við B er að setja X við enn betri stað til að búa á.

Elsa Lára Arnardóttir formaður bæjarráðs á kjörtímabilinu 2018 – 2022 og núverandi oddviti Framsóknar og frjálsra og skipar 7.sæti á lista í komandi sveitarstjórnarkosningum

Ragnar Sæmundsson formaður skipulags- og umhverfisráðs á kjörtímabilinu 2018 – 2022 og skipar 1. sæti á lista Framsóknar og frjálsra í komandi sveitastjórnarkosningum.