Í dag eigast við ÍA og Breiðablik í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Norðurálsvelli heimavelli ÍA við Jaðarsbakka. Mikill kraftur hefur einkennt stuðningsmenn ÍA það sem af er tímabilinu og hefst upphitun „Fan Zone“ á Aggapalli kl. 11:30.
Blikar eru með fullt hús stiga eftir 3 leiki eða 9 stig og eru í öðru sæti deildarinnar á eftir Valsmönnum sem eru með 10 stig eftir 4 umferðir. ÍA er með 5 stig að loknum 3 umferðum en liðið hefur líkt og Breiðabli ekki tapað leik það sem af er Íslandsmótinu.
Sagnaritarinn Jón Gunnlaugsson hefur haldið utan um knattspyrnusögu ÍA með miklum glæsibrag í gegnum tíðina. Fram kemur á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð að leikurinn í dag á Akranesvelli er sá 1000 í sögunni í efstu deild Íslandsmótsins hjá karlaliði ÍA.
Hér fyrir neðan er greinin frá Jóni á vefnum Á Sigurslóð.
Allt frá 1946 þegar ÍA tók fyrst þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu hefur félagið leikið 999 leiki i efstu deild og orðið meistari 18 sinnum, fyrst 1951 og síðast 2001. Í þessum 999 leikjum hefur ÍA farið með sigur af hólmi í 470 leikjum, 208 lyktaði með jafntefli og ÍA beið lægri hlut í 321 leik. ÍA hefur í þessum leikjum skorað 1.804 mörk en fengið á sig 1.383. Vinningshlutfallið er 57% ÍA í vil.
Þetta er merkur áfangi í sögu knattspyrnunnar á Akranesi sem nær allt frá 1946 þegar ákveðið var að senda sameiginlegt lið knattspyrnufélaganna tveggja til keppni, en ekki í sitt hvoru lagi. Má fullyrða að þessi ákvörðum hafi átt stóran þátt í þeirri velgengni sem síðar varð. Fyrstu árin voru erfið og fljótt snerist það við.
Með fyrsta meistaratitlinum 1951 hvað við nýjan tón í íslenskri knattspyrnu. Landsbyggðarlið hafði stimplað sig inn og gaf öðrum byggðalögum tóninn og jafnframt Reykjavíkurliðunum keppni sem um munaði. Nánast samfelld sigurganga stóð yfir í nánast 50 ár með litlum hléum. Þó eitthvað hafi verið gefið eftir á undanförnum árum er enn sami metnaður og var og vonandi styttist í að árangur verði á við það sem áður var.
ÍA er stórveldi í íslenskri knattspyrnu. 18 meistaratitlar segja sína sögu sem og ýmis önnur afrek sem fylgja slíkum árangri. Ekkert félag hefur unnið titilinn jafnoft á þeim tíma sem ÍA hefur verið þátttakandi.
Markaskor liðsins er með því mesta sem þekkist, markakóngar á hverju strái og stærstu úrslit í einstaka leikjum. Samtakamáttur fólks á Akranesi gagnvart knattspyrnuliðinu hefur skipt miklu máli. Hér fyrr á árum var oft talað um að arðsemi fyrirtæka hafi oft snúist um stöðu knattspyrnuliðsins hverju sinni.
Bæjarbragurinn snerist líka oft eftir gengi knattspyrnuliðsins. Allt þetta hefur sína sögu og engin ástæða til að mikla það fyrir sér. Þó er vert á tímamótum sem þessum að rifja upp góðar minningar sem tengjast knattspyrnulífinu á Akranesi í áratugi.
Leikurinn gegn Breiðablik sem er í efsta sæti Bestudeildarinnar með fullt hús stiga er laugardaginn 7 maí kl. 14.00.