Af hverju skiptir stafræn umbreyting sveitarfélög máli? Kosningar 2022: Aðsend grein frá Sædísi Alexíu Sigurmundsdóttur.

Framsókn og frjálsir hafa í stefnuskrá sinni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar lagt línurnar, hvað varðar Akranes sem stafrænt sveitarfélag. Okkar markmið er að vera forystusveitarfélag þegar kemur að stafrænni umbreytingu í stofnunum og þjónustu bæjarins. 

Stafræn umbreyting er stórt og jafnframt mikilvægt verkefni sveitarfélaga. Daglega nýtum við tæknina til þess að auðvelda okkur skrefin og auka hraðann í því sem við erum að fást við. Tækifærin sem eru til staðar í stafrænni umbreytingu eru í raun óteljandi. Allt gengur þetta út á að hámarka nýtingu, búa til meira virði og auka gæði til þess að mæta framtíðarkröfum og skapa nýjar leiðir til þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Það eitt og sér útskýrir af hverju stafræn umbreyting skiptir sveitarfélög máli. Við reynum að tryggja sem bestu mögulegu þjónustu til hagsmunaaðila sveitarfélagsins, þar sem hraði og gæði eiga að vera í fyrirrúmi. En væri ekki tilvalið að tryggja þjónustuna með auknu gagnsæi og skilvirkni? Gott dæmi um það er t.d. birting gagna með fundargerðum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á þeim fundum eru teknar ákvarðanir sem hafa mikil áhrif á innviði og uppbyggingu sveitarfélagsins. Slík birting eykur til muna gagnsæi til íbúa og fyrirtækja. Einnig getum við aukið til muna sjálfvirkar afgreiðslur, innsendingu umsókna og lýðræðislega þátttöku íbúa til ákvarðanatöku um uppbyggingu innan samfélagsins. 

Hvað hefur verið gert? 

Akranes er ekki að stíga sín fyrstu skref með þessum áherslum en eins og í öllu er hægt að betrumbæta mikið. Við erum til að mynda þátttakendur í samvinnuverkefni sveitarfélaga um stafræn sveitarfélög. Hefur þar Sævar Freyr bæjarstjóri gegnt starfi formanns stafræns ráðs. Umrætt ráð vinnur þvert á sveitarfélög í verkefnum við að leita leiða til bestu mögulegra tæknilausna með hagkvæmum kostnaði. Verkefni sem um ræðir eru t.d. stafræn afgreiðsla umsókna um fjárhagsaðstoð með hraðvirkari og skilvirkari hætti. Í apríl á þessu ári tók Akraneskaupstaður upp þetta stafræna umsóknarferli fjárhagsaðstoðar og núna sækja þjónustuþegar um fjárhagsaðstoð í gegnum www.island.is. Önnur verkefni ráðsins eru skoðun á sameiginlegu útboði sveitarfélaga um leyfismál Microsoft Office 365 og lausnir sem tengjast skjalavistunarkerfi og stafrænni umsýslu innan sveitarfélaga.

Þá hefur Akraneskaupstaður í samvinnu með Kópavogi og Akureyri tekið þátt í þróun smáforrits (apps) fyrir íbúa Það verkefni hefur verið eitt af forgangsverkefnum sveitarfélagsins í að umbreyta þjónustu og upplýsingastreymi til íbúa. Í appinu verður fyrst um sinn hægt að finna fréttir, tilkynningar og viðburði ásamt því að stigið er skref að stafræna sorphirðukort eða klippikort sem flestir þekkja. Þetta verkefni er þróunarverkefni og er markmiðið að bæta inn nýjungum jafnóðum. 

Meðal fleiri verkefna má nefna samstarf við fyrirtækið Grammartek á Akranesi um vélmennið Sæma sem svarar spurningum á heimasíðu Akraneskaupstaðar, bæði talandi og skriflega. Þá verður Akranes einnig fyrsta sveitarfélagið sem gefur út stafræna húsnæðisáætlun. Svo má ekki gleyma þeim ótal mörgu tækifærum sem myndast með opnun Breið þróunarfélags. 

Hvað svo?

Það er svo margt sem stafræn umbreyting snertir. Það geta verið skólamál, menningarmál eða fjármál svo ég nefni nokkur dæmi. Þetta er ekki bara eitthvað eitt. Umbreyting er í raun táknræn fyrir þær nýjungar sem hægt er að framkvæma en getur líka verið breyting á upplifun í þjónustu eða samskiptum. 

Á málefnafundum skólamála kom skýrt fram að við þurfum að gera betur í innviðum innan skólanna okkar. Okkar áherslur eiga að lyfta þeim málum upp. Við viljum fjölga og auka framboð tækjabúnaðar innan skólanna en um leið fjárfesta í mannauði skólasamfélagsins til þess að sækja aukna þekkingu í að nýta tæknina betur við kennslu. Hér reynir á að vera framsýnn og um leið styðja skólasamfélagið við að sækja fram og vera áfram forystuskólar þegar kemur að kennsluháttum.

Við viljum vissulega halda áfram í þeim verkefnum sem nefnd eru hér að ofan en einnig viljum við taka enn meiri þátt í að efla þjónustustig bæjarins með því að tryggja aukið gagnsæi til íbúa, t.d. með betri nýtingu kerfa. Í kortasjá bæjarins er hægt að vera með rauntímakort fyrir Akranesstrætó, sorphirðu og snjómokstur en þessir þættir eru mjög mikilvægir þjónustuliðir fyrir íbúa og fyrirtæki. Hægt væri síðan að tengja rauntímakortin við þjónustuapp bæjarins sem nefnt var hér að framan. 

Við viljum stuðla að aukinni lýðræðislegri þátttöku íbúa til ákvörðunar um uppbyggingu innan sveitarfélagsins með því að nota hugmyndafræði um „Okkar Akranes“ þar sem íbúar leggja til hugmyndir í innviðauppbyggingu og síðan fari fram kosning meðal íbúa um hvað skuli framkvæma. Við viljum setja fram með stafrænum hætti fjárfestingaáætlun bæjarins um gatnaframkvæmdir og göngustíga þar sem forgangsröðun er skýr, hvað verið sé að fara að lagfæra og hvaða nýframkvæmdir munu eiga sér stað. Hér heyrum við brýnt ákall og því viljum við mæta.  

Við viljum efla menningararfleið Skagamanna með því að byggja upp sögugöngur með rafrænum hætti þar sem hægt væri að fá sögulegan fróðleik með útivistarmöguleikum á Akranesi. 

Eins og ég sagði, tækifærin eru óteljandi. Það er okkar að grípa þau og koma þeim í framkvæmd.

Framtíðin er björt og ég trúi því að við getum orðið forystusveitarfélag í þjónustu við íbúa og fyrirtæki er varðar stafræna umbreytingu. Leiðin er skýr og með réttri hugsun og forgangsröðun náum við þeim árangri.

Að setja X við B er að setja X við enn betri stað til að búa á.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir

Höfundur skipar þriðja sæti á lista Framsóknar og Frjálsra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí nk.