Káraliðið byrjaði Íslandsmótið með góðum úrslitum á erfiðum útivelli gegn Sindra



Knattspyrnufélagið Kári lék sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu í gær á útivelli gegn liði Sindra á Höfn í Hornafirði.

Liðin eru í 3. deild en lið Sindra endaði í fjórða sæti deildarinnar í fyrra – en Kári hefur ekki leikið í 3. deild frá árinu 2017 þegar liðið sigraði í deildinni.

Kári féll úr 2. deildinni s.l. haust eftir fjögurra ára veru í þriðju efstu deild Íslandsmótsins.

Lið Kára er að stórum hluta skipað ungum leikmönnum sem hafa leikið með yngri flokkum ÍA.

Í liðinu eru einnig þaulreyndir leikmenn á borð við Andra Júlíusson sem skoraði jöfnunarmark Kára þegar 6 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma – úr vítaspyrnu.

Robertas Freidgeimas kom heimamönnum yfir á 78. mínútu en þegar skammt var eftir af leiknum var brotið á Nikulási Ísari Bjarkasyni í vítateig Sindra og vítaspyrna dæmd. Andri skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði Kára gott stig á erfiðum útivelli.

Káramenn komu nokkuð sáttir heim á Skagann rétt um miðnætti í gærkvöldi eftir um 1000 km. akstur til og frá Hornafirði.

Næsti leikur hjá Kára er á kosningadaginn og fer sá leikur fram í Akraneshöllinni kl. 14:00 laugardaginn 14. maí – þar sem að KFS úr Vestmannaeyjum er mótherji Skagaliðsins.

Alls eru 12 lið í 3. deild og hér má sjá stöðuna eftir 1. umferðina.