Að innan brenn – fyrir Skagamenn



Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Liv Åse Skarstad

Þegar hafist er handa við að setja saman lista af fólki fyrir sveitarstjórnarkosningar er oft úr vöndu að ráða. Hvað á að horfa í þegar fólk er valið og hvaða eiginleika viljum við sjá í frambjóðendum? Fyrst þarf að ákveða hvort farið sé í uppstillingu eða prófkjör. Hér á Akranesi er algengt að ákveðið sé að stilla upp og er það ekki síst vegna þess hversu erfitt hefur reynst að fá fólk til starfa. Oft er úr vöndu að ráða og valið erfitt. 

Við hjá Framsókn og frjálsum fórum þá leið að fá uppstillingarnefnd til starfa og auglýstum eftir áhugasömum einstaklingum til að taka þátt. Umsóknirnar sem bárust voru ívið fleiri en sætin sem í boði voru og því varð uppstillingin með flóknari hætti en oft hefur verið.  Við vorum svo lánsöm að margir vildu leggja okkur lið og höfðu áhuga á að vera með. Uppstillingarnefndin tók sér góðan tíma til að ræða við mögulega frambjóðendur og vönduðu vel til allra verka. Ósk okkar var sú að okkar listi myndi endurspegla sem best mannlífið á Akranesi og því var sérstaklega farið í að fá fólk úr öllum áttum. Enda tel ég að einkar vel hafi tekist til í þeim efnum! Á meðal okkar er fólk úr atvinnulífinu, heilbrigðiskerfinu, starfsmenn Akraneskaupstaðar (frá skóla- og velferðarþjónustu og stjórnsýslu), starfsmenn stóriðju, erlendir innflytjendur, eldri borgarar og heimavinnandi húsmæður. Allir þessir einstaklingar búa yfir margvíslegri reynslu og þekkingu sem hefur verið okkur sérstaklega dýrmætt í allri málefnavinnunni undanfarnar vikur. Í hópnum okkar er mikill mannauður sem mun vinna vel fyrir Skagamenn fái hann til þess gott umboð.

Er þetta ekki einmitt það sem við viljum og þurfum á að halda í bæjarstjórn? Það er, hóp einstaklinga sem endurspeglar mannlífið og fjölbreytnina í samfélaginu okkar.

Þegar ný bæjarstjórn kemur til með að taka við umboði sínu eftir bæjarstjórnarkosningarnar, sem fram fara n.k. laugardag þann 14. maí, þá hefst mikil vinna ný kjörinna bæjarfulltrúa við að skipa í meiri- og minnihluta og ráð og nefndir. Þá er mikilvægt að allir flokkar ræði saman og finni hvernig þeir geta í sameiningu þjónustað bæjarbúa á sem bestan hátt og með hvaða hætti eigi að vinna að þeim stefnumálum sem sett voru fram í kosningabaráttunni.

Mikilvægt er að hafa það hugfast í þessari vinnu að allir bæjarbúar hafa rétt til að sitja við sama borð og bæjarstjórnin þarf að starfa í umboði þeirra allra, en ekki einungis fárra útvalinna. 

Virk hlustun 

Í uppeldi barna minna hef ég reynt af fremsta megni að kenna þeim umburðarlyndi, gildi samvinnu, óeigingirni og fórnfýsi. Ég hef alið þau upp í mikilvægi þess að hlusta á aðra og að þegar þau vilja að á þau sé hlustað, dugi ekki að öskra hærra til að tryggja að það sé tekið mark á manni. Staðreyndin er sú að það bylur oft hæst í tómri tunnu og vilji fólks til að hlusta, minnkar yfirleitt ef hærra er talað. Við þurfum að sýna kjark og þor þegar það kemur að því að hlusta á notendur þjónustu okkar, hlustum með opnum huga og sjáum þau ótalmörgu tækifæri sem skapast við það.

Meiri skilvirkni

Við þurfum að tryggja uppbyggilega og jákvæða menningu innan bæjarstjórnar þar sem virðing og samvinna eru hornsteinar samstarfsins. Þar sem skoðanir annarra eru virtar en ekki lítilsvirtar. Þar sem allir eiga rödd og allir hafa rétt á að tjá sig án hættu á að verða smánaður eða hæddur. Öll erum við ólík og komum úr mismunandi áttum en við eigum það sameiginlegt að vilja vinna í þágu okkar góða samfélags. Verum meðvituð um mikilvægi þess að skiptast á skoðunum og gefum okkur tíma til að hlusta og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem flestum hugnast.  Okkur kann að greina á hvernig við förum að því og á hvað við viljum leggja áherslu en þegar mest á reynir erum við sammála um ansi margt. Sýnum þá framsækni og þor að vinna saman sem ein heild, ekki sem tvístruð hjörð sem getur ekki og vill ekki starfa saman heldur einungis þjóna okkar einka hagsmunum. Þannig komum við til með að tryggja betri árangur og meiri skilvirkni í vinnu bæjarstjórnar ásamt því að skapa meiri virðingu fyrir bæjarfulltrúastarfinu og öllu því óeigingjarna starfi sem bæjarfulltrúar okkar inna af hendi. Það mun án vafa skila sér í meiri ánægju og bættri þjónustu til íbúa. Þannig komum við til með að þjóna samfélaginu á Akranesi best.

Kæru kjósendur! Með samvinnu og samstöðu að leiðarljósi leitast ég eftir umboði ykkar til að fá að þjóna bæjarbúum Akraness næsta kjörtímabil. Setjum X við B n.k. laugardag og tryggjum þannig enn betra Akranes á komandi árum.

Liv Åse Skarstad

Höfundur er varabæjarfulltrúi og skipar annað sæti á lista Framsóknar og frjálsra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.