Miðbæjarsamtökin Akratorg – Hvað og hvers vegna? 



Akratorg er torgið í miðbæ Akraness. Í sjálfu hjarta bæjarsins. Eða hvað?

Ólafur Páll Gunnarsson formaður Miðbæjarsamtakanna Akratorgs skrifar: 

Hvað er miðbær? Þarf að vera miðbær? 

Jú við Skagamenn hópumst í miðbæinn úr öllum hverfum á 17. júní, þegar kveikt er á jólatrénu í desember og á Írskum dögum t.d. Þegar eitthvað er um að vera í miðbænum þá kemur fólk. Fólk sækir í annað fólk. Maður er manns gaman.

En er þetta nóg? Okkur sem stofnuðum Miðbæjarsamtökin finnst það eiginlega ekki og þess vegna urðu þau til. En hvað gera miðbæjarsamtök? Við erum að þreifa okkur áfram með það en erum sammála um að við viljum gera allskonar skemmtilegt og uppbyggjandi.

Við viljum geta haft áhrif á þær ákvarðanir sem eru teknar varðandi miðbæinn á Akranesi. Við viljum eiga gott samtal við þá sem ráða hverju sinni, fá að vera með í ráðum með þeim sem á endanum taka ákvarðanir varðandi miðbæinn. Íbúa-lýðræði er orð sem er talsvert vinsælt að nota í dag. Við viljum sjá það virka. Við viljum geta komið með uppástungur að einhverju sem okkur finnst að geti bætt stemninguna og bæjarbraginn þannig að það verði skemmtilegra og betra að búa á Akranesi.

Það er mikið talað um Selfoss þessa dagana og nýja miðbæinn þar. Það eru flestir sammála um að þar hafi tekist vel til. Hvað er verið að gera þar? Jú búa til nýjan miðbæ þar sem enginn miðbær var. Þar eru byggðar eftirlíkingar af húsum héðan og þaðan af landinu sem flest voru byggð fyrir meira en 100 árum. Það er flott og glæsilegt. Falleg hús – flottur miðbær sem margir Skagamenn hafa skoðað undanfarið. Hafa Skagamenn orðið varir við mikla umferð Selfyssinga í miðbæinn okkar undanfarið? Hvort ætli þjónusta, veitingahús, verslanir og slíkt gangi betur í miðbænum á Selfossi eða á Akranesi? Ég held að Selfoss hafi vinninginn margfalt. Hvað getum við gert til að breyta þessu? Viljum við t.d. fá ferðamenn í bæinn? Það eru ekki allir Skagamenn hrifnir af því og segja að Akranes verði aldrei ferðamannabær og það sé ekkert vit í að fylla hér allt af ferðamönnum. Þetta sama fólk vill auðvitað geta ferðast um allan heim og heimsótt alla þá staði sem því dettur í hug að heimsækja og skoða.

Við eigum miðbæ

Já við eigum miðbæ og þurfum ekki að búa hann til. Hann var meira að segja hannaður af Guðjóni Samúelssyni fyrrum húsameistara ríkisins á sínum tíma. Við þurfum bara að taka ákvörðun um að við séum öll sammála um miðbærinn okkar sé þar sem hann sannarlega er – við glæsilegt og uppgert Akratorgið, þar sem styttan af sjómanninum er. Það er fyrsta skref. Miðbærinn er ekki á bílaplaninu við Krónuna. Þar er mjög gott bílastæði fyrir mjög marga bíla en það er ekki miðbærinn á Akranesi. Eða hvað? Viljum við það? Eigum við kannski að flytja sjómanninn og jólatréð og 17. júní á Krónuplanið? 

Það þarf að taka ákvörðum um að efla miðbæinn með öllum tiltækum ráðum. Snyrta hann til og fá íbúana með í það. Finna leið til að laga gömul hús og gera Þau meira aðlaðandi. En þetta er samvinnuverkefni. Bæjaryfirvöld geta líka gert margt, lagt línur og unnið með okkur íbúunum. Miðbæjarsamtökin binda miklar vonir við nýráðinn garðyrkjustjóra, skagamanninn Jón Arnar Sverrisson og óska honum velfarnaðar í starfi.

Það eru auðar byggingalóðir í miðbænum – það má skoða hvort ekki sé hægt að byggja á þeim eitthvað sem passar vel inn í það sem fyrir er.

Ráðhúsið við Akratorg

Ég hef talað mikið um Landsbankahúsið sem að mínu mati yrði kjörið ráðhús Akurnesinga. Bæjarskrifstofunar eru í leiguhúsnæði í dag, þurftu að flytja í faðm eldri borgara á Dalbraut í nýja húsið þeirra, af Stillholtinu, vegna myglu. Á meðan stendur 1400 fm hús í eigu bæjarins næstum tómt við sjálft „ráðhústorgið“. Það þarf bara að taka ákvörðun um að laga það, skipta um glugga, laga lekt þak, hreinsa innan úr því – innrétta upp á nýtt og flytja inn. Það yrði að mínu mati gríðarleg lyftistöng fyrir miðbæinn. Ýmsir hafa mótmælt þessari hugmynd og sagt að það sé ekki mikil traffík eða líf á bæjarskrifstofunum en ég lít líka á þetta sem táknrænt skref. Að stjórnsýslan komi í miðbæinn og segi svo; Hér erum við. Hér er hjarta bæjarins. Komum saman hér þar sem hjartað slær. Ef húsið er ekki nógu stórt er hægt að byggja fyrir aftan það eins og Ormar Þór arkitekt hússins hefur bent á. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni – fullt af möguleikum.

Það mætti meira að segja koma bæjarskrifstofunum fyrir á efri hæðunum tveimur og neðsta hæðin gæti nýst í eitthvað annað; Veitingahús, mathöll, bókasafn, verslanir, kaffihús, upplýsingamiðstöð ferðamanna…

Bærinn á þetta hús skuldlaust og fékk það fyrir mjög lítið á sínum tíma. Auðvitað kostar eitthvað að laga Það og innrétta en það er í öllu falli ódýrara að gera upp hús en að byggja nýtt auk þess sem það er í takt við nýja tíma þegar fólk vill vera umhverfisvænt. Það kostar líka mikið að rífa og fjarlægja hús. Og það er ekkert óeðlilegt að það þurfi að skipta um glugga sem eru orðnir meira en 50 ára gamlir. Þar fyrir utan er þetta mjög merkilegt hús – teiknað af Skagamanninum Ormari Þór Guðmundssyni í sementsbænum Akranesi sem hann þá var. Það má líta á það sem minnisvarða um það sem var – merkja húsið sérstaklega og segja sögu þess.

Við í miðbæjarsamtökunum Akratorg þökkum þeim sem mættu á fundinn í Tónbergi í gærkvöldi og þær góðu viðtökur sem fundurinn hefur fengið sem og samtökin. Við hvetjum fólk til að ganga í samtökin, þau eru fyrir alla Akurnesinga – hvar sem þeir búa. Það kostar ekki neitt og öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu. 

Við viljum fá að nota tækifærið til að þakka bæjar listamönnunum Valgerði Jónsdóttur og Eðvarð Lárussyni fyrir skemmtunina í gær, og líka bræðrunum Þorra og Bergi Líndal fyrir mynd og hljóðupptöku. Þátturinn verður gerður aðgengilegur á Youtube síðar í dag.

Ég flutti aftur á Akranes rétt fyrir jólin 2017 eftir 30 ár í Reykjavík og Hafnarfirði. Það var mjög gott að koma aftur heim. Það er mjög gott að búa á Akranesi – en ég er sannfærður um að það getur verið svo miklu skemmtilegra. 

Ólafur Páll Gunnarsson – formaður Akratorgs.

Helstu áherslur (01.05.2022)

Akratorg – Miðbæjarsamtök 

Styrkjum og eflum gamla miðbæinn á Akranesi – fyrir alla bæjarbúa

miðbær Akraness verði vel skilgreindur bæði landfræðilega og sem vannýtt auðlind. Að bæjaryfirvöld taki strax ákvörðun um að efla hann og styrkja markvisst. Gera hann að aðlaðandi  fyrir bæjarbúa og gesti með öllum tiltækum ráðum. Er þar vísað jafnt til skipulagsmála og aðgerða sem stuðla að því að mannlíf, verslun og þjónusta fái dafnað í miðbænum. 

  • Að bæjaryfirvöld standi fyrir hvatningarátaki þar sem íbúar og rekstaraðilar í miðbænum eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að gera miðbæinn meira aðlaðandi
  • Að með samstilltu átaki bæjaryfirvalda og íbúa verði lögð sérstök áhersla á að miðbærinn sé alltaf hreinn og snyrtilegur 
  • Að farið verði í þéttingu byggðar á auðum lóðum í miðbænum og að á sama tíma verði lögð áhersla á að halda í gamla götumynd
  • Að stuðlað verði að því að gömul hús í miðbænum verði gerð upp og að þeim sé alltaf haldið sómasamlega við
  • Að kannaður verði fýsileiki þess að gera Skólabraut og Kirkjubraut að vistvænum einstefnugötum 
  • Að þvergötu á milli Akratorgs og Landsbankahússins verði lokað og verði þar með hluti af Akratorgi
  • Lögð verði áhersla á að ekki verði dregið úr framboði verslunar- og þjónusturýma á jarðhæðum í miðbænum.
  • Að skapað verði rými fyrir alls kyns listsköpun í miðbænum, bæði einstakar uppákomur og varanlega list – til dæmis útilistaverk
  • Að stuðlað verði að auknu viðburðahaldi í miðbænum til að auka líf og fjör
  • Að saga bæjarins verði gerð sýnileg, til dæmis með söguskiltum og að gömlu götuheitin verði annað hvort tekin upp aftur eða merkt sérstaklega með núverandi götuheitum
  • Að íbúar i gömlum húsum í miðbænum verði hvattir til að merkja húsin með nöfnum þeirra
  • Að Merkurtún verði hafið til vegs og virðingar með aðgerðum sem gera það meira aðlaðandi til útivistar og viðdvalar fyrir alla aldurshópa, til dæmis með sparkvelli, meiri gróðri, bekkjum og þess háttar
  • Að Skrúðgarðurinn við Suðurgötu verði færður í upprunalegt horf – að hann fái að bera nafn með rentu
  • Að mörkuð verði stefna um framtíð Landsbankahússins í hjarta bæjarins – með það fyrir augum að kanna möguleika á að flytja stjórnsýslu bæjarins þangað