Ungt fólk og Sjálfstæðisflokkurinn



Kosningar 2022 – Aðsend grein frá fjórum frambjóðendum á lista Sjálfstæðisflokksins:

Bæjarmálin koma okkur öllum við, sama á hvaða aldri við erum. Við viljum búa í samfélagi sem er til fyrirmyndar allt okkar æviskeið, frá vöggu til grafar. En ungt fólk er oft hópurinn sem hugsar minna í kosningunum og láta sig oft ekki um þessi mál varða, því miður. Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 var kosningaþátttaka hjá fólki á aldrinum 20 – 24 ára ekki góð – en innan við helmingur þessa aldurshóps greiddi atkvæði eða um 48,1%. Kjörsókn var þó betri meðal þeirra sem voru 18-19 ára og eða um 53,7%. Það má því sjá, svart á hvítu, að hér þarf klárlega að gera betur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf talað fyrir frelsi einstaklingsins. Við viljum að allir hafi öruggt íbúðarhúsnæði, hvort sem það er leiguhúsnæði eða eigið húsnæði – því það að hafa þak yfir höfuðið er einn af grunnþörfum mannsins. Við viljum hjálpa ungu fólki að komast að heiman, og í sitt eigið húsnæði. Við verðum að tryggja að það séu fjölbreytt húsnæði í boði. Húsnæði fyrir fyrstu kaupa eigendur, fjölskyldufólk, fyrir fólk sem vill flytja til okkar og tala nú ekki um húsnæði fyrir eldra fólkið okkar. Við viljum samfélag sem virkar fyrir alla. Við Skagamenn erum eins ólík og við erum mörg og því þurfum við að koma til móts við alla og sinna þörfum íbúa á mismunandi hátt svo að allir geti haft það sem best. 

Okkur langar sérstaklega að hvetja ungt fólk til að kynna sér kosningamál flokkana og nýta rétt sinn, því atkvæði allra skipta máli. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það og sannað í verki að hann treystir ungu fólki. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir varð dómsmálaráðherra aðeins 28 ára gömul og er hún nú háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt því að vera ritari Sjálfstæðisflokksins. Önnur öflug kona er hún Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem varð ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra 29 ára gömul og í dag situr hún í sæti utanríkisráðherra  og er auk þess varaformaður Sjálfstæðisflokksins. 

Talandi um ungt fólk – en þá eigum við Sjálfstæðismenn yngsta oddvitann í komandi sveitarstjórnarkosningum á Akranesi, hana Líf Lárusdóttur sem feta sín fyrstu skref í pólitík, en hún er þrítug. Á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi má sjá margt ungt og efnilegt fólk. Í 4. sæti situr Sigríður Elín Sigurðardóttir (21 árs) en hún er auk þess annar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Í 9. sæti situr Bergþóra Ingþórsdóttir (25 ára). 13. sætið skipar Daníel Þór Heimisson (25 ára) og í 15. sæti er hann Helgi Rafn Bergþórsson en hann yngstur á listanum – einungis 18 ára gamall. Það má því segja að flokkurinn treystir ungu fólki til áhrifa. Því þætti okkur vænt um ykkar stuðning í komandi kosningum sem fara fram þann 14. maí næstkomandi. Við sem flokkur viljum hafa sterkt umboð og viljum láta raddir unga fólksins heyrast. 

Kjósum flokkinn sem raunverulega treystir ungu fólki – XD fyrir Akranes

Greinin er skrifuð af Sigríði Elínu Sigurðardóttir (4. sæti), Bergþóru Ingþórsdóttir (9. sæti), Daníel Þór Heimissyni (13. sæti) og Helga Rafni Bergþórssyni (15. sæti).