Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Ragnari B. Sæmundssyni:

Ég hef áður fjallað um það í mínum greinaskrifum að skipulagsmál og uppbygging mannvirkja séu ekki málefni eins kjörtímabils. Kjörnir fulltrúar þurfa að sjá hlutina í stærra samhengi og til lengra tíma. Við stjórnarskipti á fjögurra ára fresti þurfa íbúar að geta treyst því að góðum verkum frá fyrra kjörtímabili sé fylgt úr hlaði í bland við nýjar áherslur og hugmyndir. Hluti af þeirri innviðauppbyggingu sem í gangi hefur verið á því kjörtímabili sem nú er að ljúka var sett fram í framkvæmdaráætlun í tíð síðustu bæjarstjórnar, flest ef ekki öll þau verkefni voru studd af fulltrúa Framsóknar og frjálsra sem þá var í minnihluta. Það er eitt að setja fram áætlun og annað að standa undir henni og framkvæma, þar hefur ekki staðið á fulltrúum Framsóknar og frjálsra á þessu kjörtímabili, verkin sanna það.

Sá sem umboðið hefur frá kjósendum á hverjum tíma ætti ekki að slá út af borðinu hugmyndir eða verkefni vegna þess að aðrir settu þau á dagskrá. Góð verkefni á einfaldlega að taka áfram íbúum og bæjarfélaginu öllu til heilla. Framsókn er miðjuflokkur. Flokkur samvinnu og sátta. 

Á bæjarstjórnarfundi þann 14. desember 2021 var samþykkt framkvæmdaáætlun fyrir árið 2022 en jafnframt áætlun fyrir 2023 til 2025. Flest af þeim verkefnum eru nú þegar í undirbúningi, komin af stað eða á lokametrunum og má þar nefna leikskóla í Skógarhverfi, endurbætur og stækkun á Grundaskóla, endurbætur á Brekkubæjarskóla, bygging íþróttarhús við Jaðarsbakka, stór viðhaldsverkefni á gatna og stígakerfi bæjarinns, stór viðhaldsverkefni á fasteignum, nýtt áhaldahús og bygging samfélagsmiðstöðvar svo dæmi séu tekin. Áætlun áranna 2023 til 2025 gerir ráð fyrir því að vinna við nýjan leikskóla á neðri skaga hefjist 2024. Framsókn og frjálsir munu fylgja því máli eftir af sömu festu og þeim verkefnum sem nú þegar hafa raungerst. Góð fjárhagsleg staða bæjarfélagsins gefur svo fullt tilefni til þess bæta í og gera en betur.

Kosningarnar þann 14. maí næstkomandi snúast um það hverjum kjósendur treysta til að fara með stjórn bæjarfélagsins. Bæjarfulltrúar þurfa að hafa kjark og metnað til þess að fylgja góðum hugmyndum úr hlaði af skynsemi og ábyrgð. Við ætlum áfram stuðla að því að frábærar hugmyndir og þörf verkefni verði að veruleika á næsta kjörtímabili. Við höfum staðið undir þeirri ábyrgð og munum gera það áfram.

Setjum x við B og gerum góðan bæ enn betri.

Ragnar Sæmundsson, bæjarfulltrúi og  formaður skipulags- og umhverfisráðs á kjörtímabilinu 2018 – 2022 og skipar 1. sæti á lista Framsóknar og frjálsra í komandi sveitastjórnarkosningum.