Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Báru Daðadóttur:

Fyrir fjórum árum fékk ég það tækifæri að bjóða mig fram í bæjarstjórnarkosningum og varð ég svo gæfusöm að taka sæti í bæjarstjórn Akraness í kjölfarið fyrir Samfylkinguna. Ég gengdi embætti formanns skóla-og frístundaráðs sem hefur verið frábært enda hef ég fengið tækifæri til að vinna að þeim málum sem ég brenn fyrir.

Fyrstu árin í lífi barna leggja grunninn að heilsu og vellíðan ævina á enda. Stjórnvöld eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að styðja við börn og fjölskyldur þeirra á fjölbreyttan hátt. Það er góð samfélagsleg fjárfesting. Fyrstu árin í lífi barna er líka oft krefjandi tími í lífi foreldra þeirra. Á sama tíma og verið er að stíga sín fyrstu skref í foreldrahlutverkinu er verið að koma undir sig fótunum í lífinu.

Fyrstu árin
Fæðingarorlof hefur verið lengt, öllu samfélaginu til heilla og verður vonandi lengt enn frekar í nánustu framtíð og jafnframt gerðar ráðstafanir sem hvetja foreldra enn frekar til þess að fullnýta fæðingarorlofið. Á sama tíma og foreldrar eru hvattir til að taka fæðingarorlof með börnum sínum er þeim í flestum tilfellum boðið uppá dýrasta úrræðið varðandi dagvistun eftir að fæðingarorlofi lýkur. Á þessu kjörtímabili hafa verið tekin gæfuspor sem snúa að því að styðja við foreldra, börn og fjölskyldur þeirra. 

Dagforeldrar
Í mars 2021 voru niðurgreiðslur til foreldra barna hjá dagforeldrum hækkaðar og hefur skóla-og frístundaráð Akraneskaupstaðar hafið samtal við starfandi dagforeldra varðandi frekari niðurgreiðslu. Markmiðið er að foreldrar barna hjá dagforeldrum greiði jafnmikið fyrir plássið og leikskólapláss hjá bænum kosta. Þá er mikilvægum áfanga náð en núverandi kerfi hefur gert það að verkum að fjárhagslega hefur það mikil áhrif á foreldra hvenær ársins börnin fæðast þar sem leikskólapláss jafngildir töluvert lægri greiðslu en greiða þarf fyrir pláss hjá dagforeldrum.

Leikskólar
Haustið 2018 var stofnaður starfshópur um leikskólamálin á Akranesi sem m.a. átti að skoða framtíðarþörf á leikskólaplássum, skilgreina alla þá þætti sem hafa áhrif á þarfir leikskólanna og meta stöðuna á Akranesi. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að bregðast þyrfti við með uppbyggingu og endurbótum. Börnin væru of mörg í rými og bæta þyrfti hljóðgæðin. Þessar niðurstöður voru teknar alvarlega og nú í haust verður nýr leikskóli í Skógarhverfi tekinn í notkun þegar leikskólinn Garðasel flytur þangað og stækkar úr þriggja deilda leikskóla í sex deilda. Leikskólinn verður glæsilegur og hugað að öllum þeim þáttum sem skipta máli í leikskólum, s.s. hljóðgæði og rýmum. Leikskólinn var hannaður í þéttri samvinnu við fagfólk leikskólanna og með byggingu leikskólans verður hinum leikskólunum gert kleift að bæta aðstæður hjá sér varðandi rými fyrir börnin.

Nú í vetur var börnum sem náð höfðu 13 mánaða aldri boðið leikskólapláss haustið 2022, þ.e. börn fædd út júlí 2021. Að mörgu er að huga þegar svona ung börn eru tekin inná leikskóla en þau hafa aðrar þarfir en eldri börn og umhverfið þarf að taka mið af þeirra þörfum. Mikilvægt er að vanda til verka og búa til aðstæður sem styðja vel við börnin og þroska þeirra. Mikil þörf er á því að halda áfram að bæta aðstæður leikskólanna og því ætti uppbygging á nýjum leikskóla á neðri-Skaga að hefjast sem allra fyrst. 

Akraneskaupstaður hefur verið heppinn með hlutfall starfandi leikskólakennara á leikskólum sínum en vísbendingar komu upp varðandi það að það færi að breytast. Til þess að halda áfram að byggja upp þetta framúrskarandi leikskólastarf sem er á Akranesi var tekin ákvörðun um að styðja við starfsfólk leikskólanna sem er í meistaranámi í leikskólakennarafræðum með því að þau haldi launum á meðan farið er í svokallaðar námslotur. Af því er mikill ávinningur en leikskólakennarar búa yfir mikilli og verðmætri þekkingu.

Möguleikar
Síðastliðinn  vetur bauðst foreldrum að fá felld niður leikskólagjöld milli jóla-og nýárs ef börnin yrðu í fríi á þeim tíma. Það gafst vel og umræðan var á þá leið að halda því áfram og bjóða uppá sama möguleika í dymbilvikunni. Fyrir foreldra skiptir miklu máli að greiða ekki fyrir þjónustu sem fyrirframákveðið er að eigi ekki að nýta og gefur stjórnendum skýrari mynd af þeirri mönnun sem þarf á umræddum tíma. Í framtíðinni er mikilvægt að horfa til þess möguleika að sumarfrí á leikskólum verði sveigjanlegri þó staðið sé vörð um að börnin fái fjórar til fimm vikur samfellt í sumarfrí. 

Mig langar að hvetja næstu bæjarstjórn til þess að halda áfram að huga vel að leikskólamálunum og öllum málum sem varða okkar ungu mikilvægu manneskjur. 

Kæru kjósendur, setjið X við S á laugardaginn – við látum verkin tala!

X-S að sjálfsögðu!

Bára Daðadóttir

Fráfarandi bæjarfulltrúi og formaður skóla-og frístundaráðs sem skipar 10.sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi.