Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Einari Brandssyni:
Í skipulagsmálum sveitarfélaga kemur best fram hvort þeir sem ráða för hafa framtíðarsýn ekki síst í sveitarfélagi í hröðum vexti eins og Akranes er og vill vera. Þar geta mál tekið breytingum en umfram allt þarf að horfa fram í tímann. Framtíðarsýnin þarf líka að vera íbúunum ljós. Þannig minnkum við þann óróa sem oft fylgir breytingum á skipulagi.
Viljum við halda áfram á þeirri braut að sívaxandi fjölgun íbúða sé nær eingöngu litlar íbúðir í fjölbýli? Í mínum huga þurfum við að huga betur að fjölbreyttum kostum að öðrum kosti breytist fjölskyldumynstrið um of.
Eitt best heppnaðasta hverfi á Akranesi og þó víða væri leitað er Grundahverfið. Nú virðist ekki mega skipuleggja þannig hverfi því ný hverfi þurfa að fylgja þeirri hugmyndafræði að öll hverfi skuli vera svokölluð blönduð byggð.Það veldur því að við sjáum rísa háar blokkir við hlið einbýlishúsa. Er það æskileg stefna?
Í dag er mikil áhugi á að fá líf í miðbæinn. Hvernig gerum við það? Er ekki einn hluti af því að fjölga íbúum í miðbænum? Þurfum við þá ekki innviði í samræmi við það? Hvað með leikskóla? Hvar á hann að rísa? „Gamli“ bærinn er jú fullbyggður. Eða hvað?
Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum á Akranesi og þá sérstaklega einbýlis- og raðhúsalóðum. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur ekki verið reist eitt einasta hús á lóð sem var skipulögð í nýju hverfi. Í upphafi kjörtímabilsins var til skipulag af áframhaldandi uppbyggingu í Skógarhverfi en núverandi meirihluti sá sig knúinn til að umbylta því skipulagi. Skipulagði í kjölfarið byggð á grænu svæði sem hefði getað orðið grunnur að framtíðar útivistarsvæði Akraness. Ég varaði við þessari þróun á sínum tíma og einnig mættu þessi áform mikilli andstöðu íbúa í Skógarhverfi. Því miður var ekki hlustað á þessar raddir. Til að flýta breytingarferlinu þá var hverfið bútað niður og lítil svæði skipulögð. Meirihlutinn þvældist með þessar breytingar megnið af kjörtímabilinu þannig að aðeins er búið að úthluta um 30 íbúðareiningum sem ekki er fyrirsjáanlegt að verði tilbúnar til uppbyggingar fyrr en seinna á þessu ári.
Núverandi meirihluti ákvað á þessu kjörtímabili að reisa leikskóla, sem í sjálfu sér var alveg tímabært, en valdi honum stað í Skógarhverfi nánast við hlið annars leikskóla. Aðkoma akandi að þessum leikskóla er að óbreyttu ekki góð og mun valda verulegu umferðaröngþveiti í Skógarhverfinu og jafnvel víðar. Þess má geta að við tilkomu þessa leikskóla verða leikskólapláss í skólahverfi Grundaskóla um 85% þar sem um 60 % af börnum búa en í skólahverfi Brekkubæjarskóla þar sem 40% af börnunum býr er um 15% af leikskólaplássum.
Hvernig vilja börnin okkar að Akranes líti út þegar þau verða miðaldra? Getum við sem tökum ákvarðanir í dag séð það fyrir eða eigum við að skipuleggja Akranes eins og við viljum að það verði eða viljum við að það verði óbreytt? Má engu breyta?
Ég hef í störfum mínum í skipulags- og umhverfisráði lagt mig fram um að þessi mikilvægu mál séu unnin í sem mestu samráði við bæjarbúa. Það gafst mér vel í formennsku minn í ráðinu kjörtímabilið 2014-2018. Þannig vill ég vinna áfram.
Það eru spennandi tímar í augsýn á Akranesi. Það kallar á stórar og vel skipulagðar ákvarðanir um uppbyggingu til framtíðar. Ég vil gjarnan taka þátt í þeirri vinnu áfram og þess vegna óska ég þess kjósandi góður að þú setjir x við D – fyrir Akranes.
Einar Brandsson
Höf. skipar annað sætið á lista Sjálfstæðismanna hér á Akranesi.