Spilum vel úr tækifærunum



Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Líf Lárusdóttur:

Kæri kjósandi,

Nú styttist í kosningar og við erum að velja fólk til þess að stýra bæjarfélaginu okkar næstu fjögur ár. Við skulum hafa það á bak við eyrað að tími er það mikilvægasta sem við eigum. Á listunum er fólk sem hefur ákveðið að verja hluta af sínum tíma til að vinna fyrir betri bæ. Mér finnst mikilvægt að við stöldrum við og veltum því fyrir okkur í hvað atkvæðið fer. Framundan eru sennilega ein þau mest spennandi ár frá upphafi kaupstaðarins og þetta þori ég að segja vegna þess að mér finnst við standa á miklum tímamótum.

Hvað á ég við með því? Jú, nú er komið tími til að við ákveðum hvað við ætlum að verða þegar við verðum stór og ákveðum hvort við ætlum að verða sofandi úthverfi Reykjavíkur eða eftirsóknarverðasta sveitarfélag landsins. Með öllum þeim kostum sem fylgir því að vera staðsett nálægt höfuðborginni en með áherslu á blómlegt atvinnulíf, lifandi menningarlíf og markaðssókn getum við auðveldlega orðið eftirsóknarverðasta sveitarfélag landsins.

Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvernig og það verður að horfast í augu við það að þetta er ákvörðun sem þarf að taka og svo þarf að gera það sem þarf að gera til að komast á áfangastað. Við eigum að setja mikinn þunga í að kynna Akraneskaupstað sem fýsilegan kost fyrir atvinnurekendur, ná hingað til okkar stæðilegum fyrirtækjum og skapa atvinnu fyrir fólkið sem hér vill búa og starfa í störfum sem það hefur sérhæft sig fyrir. Grænir iðngarðar eru virkilega spennandi en við verðum að sækja, það mun ekkert koma skríðandi hingað til okkar. Við þurfum líka að setja stóraukinn kraft í ásýnd bæjarins, göturnar, stígana okkar og umhverfið almennt. Menningarlíf, græn svæði og lifandi miðbær eru atriði sem bæði unga fólkið okkar horfir til við val á framtíðar bústað og ekki síður fólk annars staðar af landinu sem horfir til annarra sveitarfélaga.

Tækifærin eru endalaus, það þarf að spila vel úr þeim spilum sem við nú þegar höfum á hendi en til þess þarf fólk sem þorir, hugsar stórt og er tilbúið að spila sókn.

Líf Lárusdóttir skipar fyrsta sætið á lista Sjálfstæðismanna hér á Akranesi.