Kosningar 2022 – Aðsend grein frá Valgarði Lyngdal Jónssyni:
Það er nokkuð ljóst að enn hefur síðasti Sjálfstæðismaðurinn ekki spreytt sig á því að skrifa sína útgáfu af hinni klassísku íslensku stjórnmálagrein! Dæmigerður titill hennar væri: „Sjálfstæðisflokknum er einum treystandi til að fara með peninga.“ Hljómur slíkra greina er þó sérstaklega holur um þessar mundir og þarf vart að útskýra það fyrir lesendum.
Sá síðasti sem spreytir sig á að skrifa sína útgáfu af þessari klassík er Guðm. Ingþór Guðjónsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Hans titill á greininni er „Einskiptistekjur skapa jákvæða rekstrarniðurstöðu Akraneskaupstaðar“ og birtist hún á vef Skagafrétta þann 10. maí og vef Skessuhorns þann 11. maí. Þar reynir frambjóðandinn að færa rök fyrir því að fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar, eins best rekna sveitarfélags á Íslandi, sé í raun og veru ekki eins góð og af er látið og lætur í veðri vaka að hér séu viðhafðar einhverjar barbabrellur til að fegra myndina.
Það er af og frá að slíkar aðdróttanir eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Hér á eftir skal farið yfir nokkrar staðreyndir til upplýsingar, bæði fyrir lesendur og frambjóðandann.
• Það er rétt að gjöld hafi hækkað umfram tekjur á kjörtímabilinu. Á tímum heimsfaraldurs Covid var ákveðið af öllum bæjarfulltrúum að bregðast við með öflugum viðspyrnuaðgerðum gegn félagslegum og efnahagslegum áhrifum hans. Það er beinlínis hlutverk opinberra aðila eins og sveitarfélaga á slíkum tímum og þarna var einfaldlega tekin ákvörðun um að tímabundið væri rétt að eyða meir en aflað væri. Sem betur fer kom þó aldrei til þess, því þrátt fyrir öflugar aðgerðir skilaði bæjarsjóður rekstrarafgangi gegnum allan Covid tímann. Nú þegar faraldurinn er í rénun eru batamerkin þegar farin að sjást, enda getur frambjóðandinn ekki annað en viðurkennt að batinn sjáist nú þegar, í ársreikningi ársins 2021.
• Ekki má heldur sleppa því úr umræðunni að það var að tillögu Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn að álagningarprósenta fasteignagjalda var lækkuð og bæjarsjóður afsalaði sér þar með ákveðnum tekjum sem hann hafði þó lagaheimildir til að innheimta. Þessa tillögu samþykktu bæjarfulltrúar allra flokka, enda langtímamarkmiðið það að laða hingað fyrirtæki og íbúa með það fyrir augum að tekjurnar skili sér síðar. Um þessa ákvörðun ríkti alger samstaða í bæjarstjórn.
• Í nýlegri greiningu KPMG á fjármálum Akraneskaupstaðar kemur fram að kostnaður vegna fræðslu- og uppeldismála kemur afar vel út í samanburði við önnur sveitarfélög og er þá sama hvort litið er til kostnaðar á hvern íbúa eða á hvert barn í sveitarfélaginu. Það verkefni bíður hins vegar næstu bæjarstjórnar að meta hvort þessi hagstæði rekstur komi niður á gæðum þjónustunnar við börnin okkar og hvort ástæða sé til að bæta þjónustuna með tilheyrandi kostnaði.
• Frambjóðandinn talar um aukin útgjöld til velferðar- og mannréttindamála og velur að nota hugtakið „rekstrartap“ til að ræða kostnað af þjónustu við fatlaða. Það er rétt að frá því að málaflokkur fatlaðra færðist yfir til sveitarfélaga hefur Akraneskaupstaður greitt samtals 717 milljónir umfram það sem fengist hefur frá ríkisvaldinu. Við höfum kappkostað að sinna þessum málaflokki vel og veita eins góða þjónustu og við getum og eigum að gera samkvæmt lögum. Við tölum ekki um “rekstrartap”, en vitum hins vegar vel hvaða flokkur stýrir ríkisfjármálunum og sér til þess að málaflokkurinn er fjársveltur ár eftir ár. Bæjarstjórnin á Akranesi verður ekki skömmuð fyrir það.
• Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á rekstur allra sveitarfélaga, sérstaklega þeirra sem treystu á ferðaþjónustu sem grunnþátt í sínu atvinnulífi. Akraneskaupstaður er ekki eitt þessara sveitarfélaga, enda er batinn hér að loknum heimsfaraldri mun hraðari en víðast annars staðar. Faraldurinn hafði hins vegar áhrif á efnahagslíf alls hins vestræna heims og Akraneskaupstaður er ekki í einhverju „stikki“ frá þeim áhrifum, bara vegna þess að hér er ferðaþjónustan ekki eins stór og annar staðar. Að loka augunum fyrir augljósum efnahagsáhrifum faraldursins lýsir þó vonandi bara saklausu hugsunarleysi hjá þeim sem það gera.
• Í grein sinni segir Guðm. Ingþór að hlutfall launa og launatengdra gjalda af rekstrartekjum nemi nærri 70% án lífeyrisskuldbindinga og hafi hlutfallið aukist úr 62% árið 2017 í tæp 70 prósent á síðasta ári. Hér gætir að hluta til ónákvæmni hjá frambjóðandanum með því að nota námundaðar tölur frekar en nákvæmar og restin af fullyrðingu frambjóðandans er einfaldlega röng. Hið rétta er að umrætt hlutfall hefur á þessum tíma vaxið úr 62% í 66,7% (ekki nærri 70%) en það er með lífeyrisskuldbindingum. Án þeirra er þetta hlutfall 60,2% sem felur einnig í sér launakostnað vegna sumarátaksstarfa og kostnað vegna styttingar vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki.
• Hinn merkilegi mælikvarði „laun og launatengd gjöld sem hlutfall af rekstrartekjum“ er mælikvarði sem segir í raun lítið um rekstur eða afkomu sveitarfélags. Það að telja það neikvætt að þessi gjöld séu hátt hlutfall af tekjum lýsir einfaldlega stjórnmálaskoðunum sem ganga út á það að betra sé að kaupa aðkeypta þjónustu af utanaðkomandi aðilum en að sveitarfélagið sé sjálft með fólk í vinnu til að gera það sem þarf að gera. Vart þarf að taka fram að ég deili ekki þeim skoðunum með frambjóðandanum, enda erum við í framboði fyrir ólíka flokka. Þarna er þó um að ræða mikilvægt atriði sem greinir flokkana á Akranesi að og gæti hjálpað kjósendum við að ákveða sig. Það sem skiptir í raun máli er það, að rekstrarafgangur bæjarins eftir árið var 578 milljónir króna, skuldir við lánastofnanir lækkuðu um 138 milljónir króna á milli ára og veltufé frá rekstri var tæplega 17% af heildartekjum eða rúmir 1,5 milljarðar, sem er 910 milljónum betri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þessum árangri náðum við með því að hafa sjálf fólk í vinnu við verkin frekar en að kaupa vinnuna að og greiða fyrir hana með öðrum hætti.
„Eins skiptis greiðslur“
Arðgreiðslur frá fyrirtækjum í eigu Akraneskaupstaðar eins og Faxaflóahöfnum og Orkuveitu Reykjavíkur eru ekki „eins skiptis greiðslur“ eins og frambjóðandinn kallar þær í grein sinni. Þó slíkar tekjur geti auðvitað sveiflast að einhverju marki, þá eru þetta reglulegar tekjur af eignum sveitarfélagsins og arður af fjárfestingum.
Frambjóðandinn kallar einnig tekjur af úthlutun lóða sama nafninu, þ.e. „eins skiptis greiðslur.“ Ekki ætla ég að útskýra eðli vaxandi samfélags í löngu máli fyrir frambjóðandanum, enda hlýtur hann að vera í óða önn að kynna sér málin sjálfur um þessar mundir. Í stuttu máli er það þó þannig, að sveitarfélag í örum en nokkuð reglulegum vexti eins og Akraneskaupstaður er, úthlutar lóðum til bygginga til að afla tekna á meðan á vextinum stendur. Þetta er nauðsynlegt til að standa undir kostnaði við uppbyggingu innviða og aukinn rekstur sem fylgir stækkandi samfélagi og er einfaldlega það sem öll stækkandi sveitarfélög gera. Þannig tryggja þau að ef/þegar að því kemur að hægist á vextinum, þá séu þjónustan og innviðirnir til staðar til að tryggja lífsgæði íbúanna og þá taka reglulegu skatttekjurnar við til að standa undir almannaþjónustunni. Þetta er í raun og veru ekkert svo flókið módel.
Eitt af því sem undirritaður getur þó tekið undir í grein frambjóðandans er sú ábending að bæjarfulltrúar þurfi alltaf að hafa vakandi auga með rekstri aðalsjóðs bæjarins og sjálfbærni hans. Rekstur aðalsjóðs hefur verið ósjálfbær um langa hríð og á kjörtímabilinu 2014-2018 benti undirritaður, þá í minnihluta bæjarstjórnar, á þetta við umræður um hvern einasta ársreikning. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa haldið þessu atriði á lofti á núverandi kjörtímabili og er það vel.
Gamla skröksagan
Skuldahlutfall sveitarfélaga er einn besti mælikvarðinn til að bera saman fjárhagslegan styrk þeirra og í þeim samanburði kemur Akraneskaupstaður afar vel út með 69% skuldahlutfall eftir árið 2021. Þau eru ekki mörg, stóru sveitarfélögin á Íslandi þar sem þetta hlutfall er lægra en 100%. Mjög auðvelt væri að benda á sveitarfélög þar sem Sjálfstæðismenn hafa haldið lengi um stjórnartaumana, með himinhátt og hækkandi skuldahlutfall og uppsafnaðan rekstrarhalla til margra ára. Gamla skröksagan um að Sjálfstæðismönnum sé einum treystandi til að fara með peninga hefur þannig verið rækilega afsönnuð, fyrst og fremst af þeim sjálfum.
Höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum