Kosningar 2022 – Aðsend grein frá þremur frambjóðendum Samfylkingarinnar:
Á síðustu árum hafa verið teknar jákvæðar og góðar ákvarðanir sem snúa að velferð barna og unglinga af stjórnvöldum. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hefur áhrif á alla helstu þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Samkvæmt þeim hvíla ríkar skyldur á þeim sem veita þjónustu til barna. Þeim ber til dæmis að taka eftir og greina vísbendingar um að þörfum barns sé ekki mætt og bregðast við slíkum vísbendingum með tilteknum hætti.
Frumvarpið nær til þjónustu sem er veitt innnan alls skólakerfisins, heilbrigðskerfisins og félagsþjónustu sem er veitt í þágu barna innan sveitarfélaga auk verkefna lögreglu. Eins er mikilvægt íþrótta-og æskulýðsfélög sem vinna með börnum taki þátt í samþættingu á þjónustunni.
Á Akranesi höfum við unnið vel undanfarin ár að því markmiði að verða tilbúin fyrir innleiðingu laganna og lögð hefur verið áhersla á það í öllum okkar verkum. Það er nefnilega mikilvægt að tryggja skilvirka og samfellda þjónustu við hæfi allra barna og áfram þurfum við að tryggja að hlustað sé eftir og tekið mark á því sem sagt er ef við einhverju þarf að bregðast. Allir sem koma að vinnunni eru mikilvægir í þeirri vegferð og á það jafnt við um starfsfólk ofangreindra stofnanna og félaga og ekki síður barna og fjölskyldna þeirra.
Á næstu vikum mun fara fram kynning á endurnýjaðri menntastefnu Akraneskaupstaðar þar sem tækifæri gefst til þess að bregðast við. Vel heppnað íbúaþing um lærdómssamfélagið Akranes fór fram í Fjölbrautaskóla Vesturlands í október 2019 en vinnan við menntastefnuna hefur tekið tíma og farið í gegnum heimsfaraldurinn Covid-19 sem hafði auðvitað mikil áhrif á stefnuna og kenndi okkur ýmislegt, bæði nýjungar og ýmislegt sem við viljum alls ekki fara á mis við.
Forvarnir og fræðsla
Akraneskaupstaður hefur boðið uppá fyrirlestra á vegum Heilsueflandi samfélags og Brúarinnar, en Brúin er formlegur samráðs-og samstarfsvettvangur starfsmanna og stofnanna sem koma að ýmsum málum sem tengjast börnum og unglingum á Akranesi. Fyrirlestrarnir tengjast líðan og velferð ungs fólks og m.a. er niðurstöðum kannanna fylgt eftir sem gerðar eru af Rannsóknum og greiningu um hagi og líðan ungs fólks. Eins hafa aðrar stofnanir Akraneskaupstaðar, s.s. leik-og grunnskólar og frístundamiðstöðin Þorpið bent á mikilvægi þess að boðið sé uppá fyrirlestra á vegum bæjarins sem styrkja foreldra í foreldrahlutverkinu og eflir fjölskyldur.
Skipulagt frístundastarf hefur mikið forvarnargildi en rannsóknir sýna að t.d. skipulagið og formgerðin sé verndandi þáttur. Á það bæði við skipulagt frístundastarf og skipulagt íþrótta-og æskulýðsstarf.
Hvað er framundan í frístunda og íþrótta-og æskulýðsmálum?
Bygging nýrrar samfélagsmiðstöðvar mun hafa jákvæð áhrif á þróun frístundastarfs en Þorpið mun flytja inní húsnæði hennar. Mikilvægt er að greina þarfir Þorpsins og þróa starfið í nánu samstarfi við notendur og fagfólk og styðja við faglegt og öflugt starf. Í kjölfarið er mikilvægt að við sem bæjarfélag vinnum að frístundastefnu sem nær til frístundastarfs frá allt lífið.
Hafin er undirbúningsvinna við íþróttastefnuna. Mikilvægt er að koma auga á öll þau tækifæri sem skapast og fylgja henni vel eftir. Íþróttastefnan þarf að ná yfir mikilvægi hreyfingar fyrir alla og hvernig við sjáum fyrir okkur að styðja við það að allir sem vilja geti æft íþróttir, óðháð aldri og getu.
Áherslumál Samfylkingarinnar í þessum málaflokki:
- Að styrkja grunnstoðir og þjónustu í skólum
- Að tómstundaframlag til barna verði hækkað töluvert og huga að því að lækka aldursmörk
- Að halda vel utan um fræðslu til foreldra í takt við rannsóknir og kannanir
- Að efla þátttöku ungmenna og styðja betur við unglinga yfir sumartímann með því að þróa vinnuskólann í takt við nýja tíma með áherslu á fjölbreyttari tækfæri
- Að halda áfram með hreyfiávísun eins og gert var sem viðspyrna til þátttöku og heilsueflingar í heimsfaraldrinum sem mætti einnig nýta til menningartengda viðburða og námskeiða
XS Að sjálfsögðu-fyrir börnin okkar, ungmenni og farsæld fjölskyldunnar
Anna Sólveig Smáradóttir, Bára Daðadóttir og Auðun Ingi Hrólfsson.
Höfundar skipa 4., 9. og 10. sæti Samfylkingarinnar á Akranesi