Kvennalið ÍA heldur sínu striki í bikarnum – flottur 2-1 sigur gegn Sindra



Kvennalið ÍA í knattspyrnu tryggði sér í gær sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ.

ÍA mætti liði Sindra á Akranesvelli í 2. umferð keppninnar en liðin eru bæði í þriðju efstu deild Íslandsmótsins, eða 2. deild.

Ylfa Laxdal Unnarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins fyrir ÍA á 39. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.

Unnur Ýr Haraldsdóttir kom ÍA í 2-0 strax í upphafi síðari hálfleiks. Þannig var staðan allt þar til á lokamínútu leiksins þegar Samira Suleman minnkaði muninn fyrir gestina frá Höfn í Hornafirði.

ÍA gæti fengið eitt af liðunum úr efstu deild kvenna í 16-liða úrslitum þegar dregið verður.

ÍA sigraði Fjölni 6-1 í fyrstu umferð keppninnar.