Efnilegt sundfólk úr röðum ÍA náði flottum árangri á móti í Keflavík



Tæplega 30 efnilegir sundkrakkar úr ÍA tóku þátt á Landsbankamóti ÍBR sem fram fór í Keflavík um liðna helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sundfélagi Akraness.

Mikil tilhlökkun var hjá keppendum að fá tækifæri til að keppa og um leið að fá tækifæri til þess að gista saman alla mótshelgina – en slíkt hefur ekki verið í boði í nokkur misseri vegna heimsfaraldurs.

Á fyrsta keppnisdeginum fengu yngstu keppendurnir tækifæri til þess að keppa í fyrsta sinn á sundmóti í 25 metra laug. Krakkarnir, sem eru flest 8 ára, stóðu sig vel og syntu góð sund.

Á öðrum keppnisdeginum kepptu 12 ára yngri í 25 metra laug og 13 ára og eldri kepptu í 50 metra laug. Þar sýndu krakkarnir úr ÍA góðar framfarir og nokkrir keppendur náðu verðlaunasæti. Það sem stóð upp úr hjá öllum keppendum var að þeir eru búin að ná að tileinka sér flest tækniatriðin sem þau hafa æft upp á síðkastið.

Einar Margeir Ágústsson setti Akranesmet í flokki 15-17 ára (piltaflokki) í 50 metra flugsundi þar sem hann kom í mark á 27,12 sekúndum. Bætti hann þar með met sem Ágúst Júlíusson setti árið 2006 – en það var 27,25 sek.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Einarsbúð, eða Verslunin Einar Ólafsson, hafi stutt við bakið á félaginu með því að útvega bakkamat fyrir sundfólkið. Stór hópur foreldra fór með hópnum til aðstoðar og þakkar Sundfélagið fyrir þann stuðning.