Söguleg tónlist tileinkuð ÍA og Akranesi aðgengileg á Spotify



Geisladiskurinn Skagamenn skora mörkin – var gefin út árið 2007. Ólafur Páll Gunnarsson og móðurbróðir hans, Haraldur Sturlaugsson, áttu frumkvæðið að útgáfunni.

Verkefnið var til minningar um Sturlaug Haraldsson afa Ólafs Páls og föður Haralds, og gert með það markmiði að styrkja ÍA. Árið 2007 voru 90 ár liðin frá fæðingu Sturlaugs Haraldssonar sem lést langt fyrir aldur fram árið 1976.

Geisladiskurinn var framleiddur í 2000 eintökum – og fékk ÍA allt upplagið til sölu.

Nýverið var tónlistin aðgengileg á tónlistarveitunni Spotify – og er hægt að hlusta á lögin hér fyrir neðan.

Á meðal flytjenda eru: Bogomil Font, Haraldur Ólafsson (Halli Melló), KK, Grundartangakórinn, Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi, Dúmbó og Steini, Abbababb, Orri Harðarson, Ummhmm, Anna Halldórsdóttir, Andrea Gylfadóttir, Geir Harðarson, Tíbrá, Tic Tac, Wipeout, Worm is Green, Ópal, og Skagakvartettinn.

Mörg af þessum lögum eru söguleg í því samhengi að lítið er til af efni á geisladiski frá þessum flytjendum. Má þar nefna Skagasveitirnar Tíbrá, Tic Tac og Wipeout. Söngkonan í síðastnefndu hljómsveitinni er Margrét Rán sem er í dag í fremstu röð í hljómsveitinni Vök.