Sjáðu mörkin úr 5-3 sigurleik ÍA gegn Sindra í Mjólkurbikarkeppni KSÍEins og áður hefur komið fram á vef Skagafrétta komst karlalið ÍA í 16-liða úrslit Mjólkurbikarkeppni KSÍ í gær með 5-3 sigri gegn Sindra á Höfn í Hornafirði.

Leikurinn fór fram á heimavelli Sindra sem leikur í fjórðu efstu deild eða 3. deild Íslandsmótsins en ÍA er í Bestu deildinni – þeirri efstu.

Þetta var í fyrsta sinn sem liðin mætast í mótsleik utanhúss

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leiknum.

Heimamenn komust yfir á 9. mínútu með marki frá Abdul Bangura.

Steinar Þorsteinsson jafnaði metin fyrir ÍA undir lok fyrri hálfleiks og staðan var jöfn í hálfleik. Sorie Barrie kom Sindra yfir á ný með marki á 52. mínútu og Gunnar Orri Aðalsteinsson, leikmaður Sindra, setti boltann í eigið mark tíu mínútum síðar og jafnaði metin fyrir ÍA.

Kaj Leo Í Bartalstovu kom ÍA í 3-2 á 67. mínútu og Guðmundur Tyrfingsson bætti við fjórða markinu á 79. mínútu, staðan 4-2 fyrir ÍA.

Ivan Eres hleypti spennu í leikinn tveimur mínútum síðar með þriðja marki Sindra en Gísli Laxdal Unnarsson tryggði sigurinn hjá ÍA með fimmta marki liðsins fjórum mínútum fyrir leikslok.

Eins og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem liðin eigast við utanhúss en eina viðureign félaganna fyrir leikinn í kvöld var á Íslandsmótinu innanhúss árið 2004 þar sem að ÍA sigraði 5-2.

Sindri er í fjórðu efstu deild, 3. deild, en liðið mætti Kára nýverið þar sem að leikurinn endaði með jafntefli 1-1. Káramenn mæta stórliði FH á morgun, miðvikudag á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði.

Karlalið ÍA hefur sigrað 9 sinnum í bikarkeppni KSÍ en KR er sigursælasta liðið í keppninni með 14 titla og Valur er í öðru sæti með 11 titla.