Stórleikur á dagskrá á 100 ára afmælisdegi Knattspyrnufélagsins Kára



Knattspyrnufélagið Kári á 100 ára afmæli í dag en félagið var stofnað 26. maí árið 1922. Félagið var endurreist árið 2005 og leikur í kvöld í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ gegn stórliði FH á Kaplakrikavelli og hefst leikurinn kl. 19:15.

Lið Kára hefur á síðustu fimm árum mætt liðum úr Bestu deild karla þrívegis Mjólkurbikarkeppni KSÍ en Kári leikur í fjórðu efstu deild, 3. deild á Íslandsmótinu.

Árið 2018 voru Víkingar mótherjar Kára þar sem að Kári var með 3-1 forystu í hálfleik og Víkingar náðu að knýja fram framlengingu á lokakafla leiksins – og höfðu síðan nauman 4-3 sigur eftir framlengingu. Í fyrra mætti lið KR stórliði KR þar sem að Káramenn voru með yfirhöndin, 1-0, allt þar til á lokakafla leiksins þar sem að KR-ingar skoruðu tvívegis og komust áfram í bikarnum með 2-1 sigri.

Haraldur Sturlaugsson er með áhugaverða – og skemmtilega samantekt um 100 ára sögu Kára – sem hann birti á fésbókarsíðu sinni og hér fyrir neðan.


„Nú var knötturinn fenginn, en þá vantaði völlinn“.

Knattspyrnufélagið Kári var stofnað á Akranesi 26. maí 1922 – ( “ en ekkert slíkt félag var til á Akranesi ”). – Séra Friðrik Friðriksson varð m.a. til þess að það var stofnað þetta ár eins og Guðmundur Sveinbjörnsson, einn stofnenda félagsins, segir í afmælisblaði KÁRA 1947:

„Það má segja, að sérhvað hafi sína forsögu og atburðarröðin sé til orðin vegna einhvers, sem á undan er gengið. Árið 1922 komu tíu ungir piltar saman til þess að stofna knattspyrnufélagið Kára. Er hægt að segja, að forsaga þessarar félagsstofnunar sé til orðin vegna hversdagslegs atviks.

Séra Friðrik Friðriksson, einn besti félagi unga fólksins, hélt barnasamkomu í kirkjunni á Akranesi og talaði um knattspyrnufélagið Val, starf þess og tilgang.

Ég, sem einn stofnenda Kára, held því hiklaust fram, að þessi samkoma séra Friðriks og sá eldmóður og skilningur á barnssálinni, sem fram kom hjá honum, eins og alltaf hefur verið hans einkenni, sé forsagan að stofnun Kára.”

Eftirfarandi er að mestu byggt á upplýsingum og samantekt frá Helga Daníelssyni og Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir jók aðeins í textann:

Knattspyrnufélagið Kári var stofnað 26. maí 1922, en þann dag komu nokkrir drengir saman í kartöflugarðinum við Árnabæ – sem var nokkurn veginn þar sem Gamla Kaupfélagið er nú – og ræddu um hvort mögulegt væri að stofna knattspyrnufélag, því ekkert slíkt félag var þá til á Akranesi. Það var mikill áhugi fyrir málinu og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að stofna félagið. Hinir eiginlegu stofnendur voru 10 talsins, en þeir voru þessir:
Gísli Bjarnason frá Austurvöllum 11 ára, Guðmundur P. Bjarnason frá Sýruparti 13 ára, Gústaf Ásbjörnsson frá Völlum 14 ára, Sighvatur Bjarnason frá Austurvöllum 10 ára og Albínus Guðmundsson frá Vegamótum 13 ára. Sigurjón Sigurðsson frá Akbraut 12 ára, Bjarni I. Bjarnason frá Austurvöllum 13 ára, Sigurður Helgason frá Lykkju 12 ára, Gísli Sigurðsson frá Hjarðarbóli 12 ára og Guðmundur Sveinbjörnsson frá Árnabæ 11 ára.

Á þessum stofnfundi var félaginu ekki gefið nafn, enda vantaði ýmislegt fleira en nafnið til þess að þetta gæti heitið knattspyrnufélag. Það vantaði lög fyrir félagið, svo eitthvað sé nefnt, en það sem þó skipti mestu máli var, að það vantaði knött.

Nú voru góð ráð dýr, því knöttur kostaði 10 krónur og það var enginn smápeningur í þá daga. Það var því ákveðið að hver félagsmaður legði fram eina krónu, en flestir áttu erfitt með að leggja fram svo háa upphæð. Það tókst þó um síðir, því strákarnir unnu í fiskvinnu og fleiru, sem þeir fengu greitt fyrir. Nú var knötturinn fenginn, en þá vantaði völlinn.

Langisandur, rennisléttur og víðáttumikill, sérstaklega um fjöru, kom nú í góðar þarfir og þar fór fram fyrsta æfingin eftir að nýi knötturinn var fenginn. Áður en æfingin hófst ákváðu strákarnir að gefa félaginu nafn. Hver félagsmaður skrifaði sína uppástungu í sandinn. Þar komu fram m.a. þessi nöfn: Elding, Högni, Gunnar Hámundarson, Kári og var síðastnefnda uppástungan samþykkt. Þá var Gústaf Ásbjörnsson kosinn formaður á þessum fundi, en fleiri voru ekki kosnir í stjórn að þessu sinni.

Um haustið var endanlega gengið frá stofnun Kára og samþykkt lög fyrir félagið. Fundurinn var haldinn í mókofa við Austurvelli og var Sveinbjörn Oddsson, sá merki maður, drengjunum til aðstoðar við að semja lög félagsins.

Tilgangur félagsins kemur fram í 2. grein: Tilgangur félagsins er að efla íþróttastarfsemi, fyrst og fremst knattspyrnu. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að halda uppi tíðum æfingum í knattspyrnu og gangast fyrir knattspyrnumótum. Ennfremur eftir föngum að gefa meðlimum sínum kost á æfingum í öðrum þeim íþróttagreinum, sem Íþróttasamband Íslands hefur á stefnuskrá sinni.
Þá var kosin stjórn, sem þessir skipuðu: Formaður var Gústaf Ásbjörnsson, ritari Sigurjón Sigurðsson og gjaldkeri Guðmundur P. Bjarnason.