100 ára afmælisdagur Knattspyrnufélagsins Kára á Akranesi var eftirminnilegur þrátt fyrir 3-0 tap gegn FH á útivelli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í gær.
Leikurinn fór fram við bestu aðstæður á frábærum grasvelli í Kaplakrika – heimavelli FH-inga.
Ólafur Jóhannesson þjálfari FH, sem leikur í Bestu deildinni á Íslandsmótinu, gerði margar breytingar á byrjunarliðinu – og leikmenn Kára gáfu ekkert eftir í baráttunni þrátt fyrir að leika þremur deildum neðar á Íslandsmótinu – eða 3. deild.
Teitur Pétursson, varnarmaðurinn þaulreyndi í röðum Kára, fékk slæmt höfuðhögg í upphitun þegar hann fékk bolta af miklum krafti í sig – og var hann fluttur á sjúkrahús til nánari skoðunar. Ásmundur Haraldsson þjálfari Kára gerði því breytingar á varnarlínu Kára rétt fyrir upphaf leiksins.
Leikmenn FH voru með talsverða yfirburði frá upphafi til enda leiks – enda vel mannað lið sem leikur í efstu deild Íslandsmótsins. Káramenn vörðust gríðarlega vel og settu spennu í leikinn með því að halda markinu hreinu allt þar til að hinn reynslumikli Steve Lennon náði að koma FH yfir á 60. mínútu. Leikmenn Kára reyndu hvað þeir gátu að koma sér í færi og jafna, Frans Bergmann Heimisson, náði ágætu skoti að marki skömmu eftir að FH komst yfir en skot hans fór framhjá. FH innsiglagði sigurinn með tveimur mörkum á síðustu mínútum leiksins, Björn Daníel Sverrisson kom FH í 2-0 og Lennon var aftur á ferðinni þegar hann skoraði þriðja mark leiksins og sitt annað í leiknum.
Leikmenn Kára fá stutta hvíld en liðið mætir Dalvík/Reyni í Akraneshöllinni næsta laugardag á Íslandsmótinu í 3. deild – sem er leikur í 3. umferð mótsins.
Myndasyrpa frá leiknum á myndavef Skagafrétta – smelltu hér.