84 atriði í viðamiklum málefnasamningi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á AkranesiMálefnasamningur Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins vegna meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Akraness kjörtímabilið 2022 – 2026 var undirritaður í dag. Sævar Freyr Þráinsson verður áfram bæjarstjóri. Í málefnasamningnum eru 84 atriði og það eru því fjölmörg verkefni sem bíða úrlausnar hjá meirihlutanum.

Í málefnasamningnum kemur fram að leitast verði við að eiga gott samstarf við alla flokka í bæjarstjórn og að stjórnsýslan snúist um að veita íbúunum góða þjónustu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Lögð verður áhersla á gott samstarf við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu og þróun á virku íbúalýðræði. Áfram verður unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs.

Málefnasamningurinn er svohljóðandi:

ATVINNA OG NÝSKÖPUN

 • Standa með og styðja fyrirtækin á Akranesi.
 • Laða sérstaklega til okkar ný fyrirtæki í Flóahverfið – grænir iðngarðar. 
 • Stækka og bæta Akraneshöfn sem lífæð í atvinnulífi bæjarins.
 • Styðja við starf Þróunarfélags á Grundartanga svo tækifæri til atvinnusköpunar verði fullnýtt. 
 • Tryggja framboð hentugra lóða og húsnæðis fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.
 • Stuðla að samráðsvettvangi milli fyrirtækja og bæjaryfirvalda á Akranesi með það að markmiði að auka samskipti og samstarf, svo atvinnurekendur í bænum hafi stuðning hver af öðrum. 
 • Nýta tækifæri til atvinnusköpunar í samvinnu við Þróunarfélagið á Breið m.a með þróun skipulags til uppbyggingar á íbúabyggð í bland við atvinnuþróun með áherslu á hátækni, nýsköpun og sjálfbærni. 
 • Leggja áfram áherslu á upplýsinga- og kynningarmál í samvinnu við atvinnulífið á Akranesi, til að koma bæjarfélaginu enn betur á kortið. 
 • Stuðla að því að sjávarútvegur vaxi og dafni á Akranesi með góðri samvinnu og samstarfi við fyrirtæki í sjávartengdri starfsemi.
 • Efla og styðja fólk með langvarandi og tímabundnar stuðningsþarfir til samfélags- og atvinnuþátttöku í samvinnu við atvinnulífið. 
 • Vinna að þróun skipulags við Grjótkelduflóa til uppbyggingar atvinnustarfsemi.
 • Halda á lofti mikilvægi þess að lagning Sundabrautar hefjist sem fyrst. 

FRAMKVÆMDIR OG SKIPULAGSMÁL

 • Halda áfram að lagfæra götur bæjarins, endurskoða langtímaáætlun um viðhald og endurnýjun gatna og gera hana sýnilega.
 • Horfa ávallt til lýðheilsusjónarmiða í skipulagi nýrra hverfa og við þéttingu byggðar í eldri hverfum bæjarins.
 • Sinna vel viðhaldi á eignum bæjarins og gera viðhaldsáætlanir sem eru sýnilegar öllum.
 • Halda áfram að bæta aðgengi að Garðalundi með því að lagfæra bílastæði og aðkeyrslu og horfa til aðgengis fyrir fatlaða.
 • Lýsa betur upp útivistarsvæði, svo sem göngustíga, opin svæði, leikvelli og skólalóðir.
 • Setja í forgang þarfir hjólandi, gangandi, sjónskertra og hreyfihamlaðra við endurhönnun gatna og stíga.
 • Vinna hratt að uppbyggingu áhaldahúss, dósamóttöku og Búkollu.
 • Gera framtíðaráætlun varðandi húsnæði stjórnsýslunnar. 
 • Gera framtíðaráætlun um skipulag miðbæjarins í góðu samtali við íbúa.   

VELFERÐARMÁL

 • Bjóða upp á fjölbreytt búsetuúrræði fyrir fólk með fötlun, m.a. með samstarfi við húsnæðisfélög fatlaðra um byggingu fleiri búsetukjarna.
 • Stefna að opnun skammtímadvalar fyrir fötluð börn og leitast eftir samvinnu við nágrannasveitarfélög. 
 • Veita félagslega þjónustu af metnaði og mannúð og leggja áherslu á úrræði til að virkja fólk til frumkvæðis og sjálfshjálpar. 
 • Standa myndarlega og hratt að byggingu nýrrar samfélagsmiðstöðvar og styðja við faglegt og öflugt starf hennar.
 • Haga ferðaþjónustu aldraðra og fatlaðra þannig að hún mæti daglegum þörfum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. 
 • Þróa samþætta þjónustu í þágu farsældar barna með samvinnu mismunandi sviða í þjónustu kaupstaðarins og öðrum sem koma að velferð barna, svo sem íþróttahreyfingunni, heilsugæslu og löggæslu. 
 • Vera til staðar í góðu samstarfi við HVE og styðja við áframhaldandi framþróun. 

MÁLEFNI ALDRAÐRA 

 • Stuðla að því að þjónusta við eldri borgara sé fjölbreytt og einstaklingsmiðuð með það að leiðarljósi að aldraðir geti búið með reisn á heimilum sínum og haldið sínum lífsgæðum. 
 • Styðja við uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Höfða og hefja vinnu við stækkun þess. 
 • Styrkja heilsueflingu aldraðra, meðal annars með samstarfi við íþróttahreyfinguna. 
 • Vinna áfram að uppbyggingu á fjölbreyttum búsetuúrræðum fyrir eldra fólk, meðal annars með samvinnu við óhagnaðardrifin leigufélög.
 • Þróa samþætta þjónustu í lífsgæðakjarna við Dalbraut í samvinnu við hagsmunaaðila.

SKÓLA- OG FRÍSTUNDAMÁL 

 • Hefja strax undirbúning að nýjum leikskóla á Neðri-Skaga. 
 • Styðja við aukna tæknivæðingu í grunnskólum með kaupum á fartölvum fyrir nemendur í 8.-10. bekk til notkunar í námi. 
 • Hækka mótframlag til foreldra vegna vistunar hjá dagforeldrum, til móts við mismuninn á leikskólagjaldi og gjaldi til dagforeldra. 
 • Hlúa að móðurmáli og íslenskukennslu barna sem eru með annað móðurmál en íslensku. 
 • Efla fræðslu fyrir foreldra barna í leik-, grunn- og framhaldsskóla. 
 • Standa vörð um gott innra starf grunn- og leikskóla, meðal annars með því að tryggja góða aðstöðu fyrir starfsfólk og nemendur.
 • Tryggja frístundaheimilum góða aðstöðu til að mæta gæðaviðmiðum um starfsemi þeirra og endurskoða opnunartíma þeirra.
 • Stuðla að auknu samstarfi milli skóla, frístundastarfs og íþróttahreyfingarinnar.
 • Efla þátttöku ungmenna og þróa vinnuskólann í takt við nýja tíma.
 • Efla stoðþjónustu í grunn- og leikskólum.

ÍÞRÓTTIR OG HEILSUEFLANDI SAMFÉLAG

 • Hafa markmið heilsueflandi samfélags til hliðsjónar í öllu starfi Akraneskaupstaðar. 
 • Vinna og innleiða íþróttastefnu, meðal annars með áherslu á þátttöku íþróttahreyfingarinnar í þjónustu í þágu farsældar barna. 
 • Áframhaldandi uppbygging á glæsilegri íþróttamiðstöð á Jaðarsbökkum
 • Sjá til þess að tómstundastyrkur barna hækki í takt við aðrar hækkanir hjá bænum og endurskoða aldursmörk og upphæðir. 
 • Endurskoða opnunartíma á íþróttamannvirkjum í virku samtali við notendur.
 • Vinna með íþróttahreyfingunni að bættri aðstöðu félaganna, setja upp sýnilega áætlun og framtíðarsýn.
 • Koma upp svæðum til nota fyrir útivist að vetri til svo sem skautasvelli og aðstöðu til gönguskíða iðkunar þegar aðstæður gefa til efni til.
 • Byggja upp Bjarnalaug og nærliggjandi svæði með áherslu á tækifæri til hreyfingar og heilsuræktar

MENNING OG SÖFN

 • Virkja og efla miðbæinn í virku samtali við íbúa
 • Hlúa að öflugu starfi Tónlistarskólans og öðru tónlistarstarfi á Akranesi.
 • Nýta Tónberg betur sem vettvang menningar og lista.
 • Styðja við fjölbreytta starfsemi bókasafns, héraðsskjalasafns og Ljósmyndasafns Akraness.
 • Finna geymsluhúsnæði fyrir muni Byggðasafnsins. 
 • Halda áfram að merkja helstu fornminjar, örnefni og sögustaði í bæjarlandinu.
 • Leita eftir samvinnu við húseigendur til að setja upp upplýsingaskilti við gömul hús í bænum þar sem greint er frá sögu hússins.
 • Gera stefnumótun um áframhaldandi uppbyggingu og viðhald á safnasvæðinu í framhaldi af nýrri og glæsilegri grunnsýningu. 
 • Nýta safnasvæðið til lifandi viðburðahalds. 
 • Bæta viðhald á útilistaverkum í bænum, merkja þau og lýsa þau upp. 
 • Setja upp upplýsingaskjái á völdum stöðum í bænum þar sem sjá megi upplýsingar um viðburði og fleira. 

UMHVERFISMÁL

 • Koma á grenndarstöðvum innan bæjarins svo íbúar geti losað sig við endurvinnsluefni með umhverfisvænni hætti.
 • Fjölga flokkunarúrræðum við heimili bæjarins, bæta við lífrænni flokkun.
 • Standa að reglulegri fræðslu um flokkun endurvinnsluefna og úrgangsforvarnir í samvinnu við þjónustuaðila.
 • Auka möguleika íbúa á að koma hlutum í endurnýtingu meðal annars með uppbyggingu á Búkollu. 
 • Fegra aðkomuna inn í bæinn, bæði við Þjóðbraut og Kalmansbraut-Kirkjubraut. 
 • Fegra bæinn með gróðri og hlúa að opnum svæðum svo sem Merkurtúni, Akurshól, Klapparholti og Garðalundi. 
 • Tengja betur göngu-, hjóla- og hlaupastíga og fjölga bekkjum meðfram þeim.
 • Vinna áfram að samfelldri hjóla- og gönguleið hringinn í kringum bæinn.
 • Bæta aðgengi að náttúruperlum okkar og halda áfram að bæta gönguleiðir að og meðfram strandlengjunni. 

FERÐAMÁL

 • Að Akraneskaupstaður setji sér stefnu í ferðamálum.
 • Halda áfram að byggja upp útivistarsvæði og aðra lykilstaði fyrir bæjarbúa og ferðamenn. 
 • Stuðla að því að hótel muni rísa á Akranesi.  
 • Bæta upplýsingagjöf til ferðamanna, m.a. með því að fara vel yfir skilti og merkingar í bænum og með því að koma fyrir upplýsingaskjám á helstu viðkomustöðum ferðamanna. 
 • Vekja athygli á Akranesi sem góðum kosti fyrir fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu.
 • Bjóða upp á Skagapassann sem veitir aðgang með afslætti að t.d. söfnum, sundlaugum, viðburðum, í Guðlaugu og í vitann. 
 • Stuðla að samráðsvettvangi ferðaþjónustuaðila á Akranesi.
 • Vekja athygli á íþróttasvæði, nýrri íþróttamiðstöð og náttúruperlum sem möguleika fyrir heilsutengda ferðaþjónustu. 

STJÓRNSÝSLA OG ÍBÚALÝÐRÆÐI

 • Vinna langtímastefnu sem styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með skýrum markmiðum og stefnumiðaðri aðgerðaáætlun og fjárhagsáætlun. Aðgerðir samstilltar í samræmi við stefnu og lagt mat á árangur og orsök frávika með skjótum hætti.
 • Halda reglulega íbúafundi um atvinnumál, menningarmál, skipulagsmál, skólamál og önnur mikilvæg mál.  
 • Nýta nútímatækni við umbætur og þjónustu til að bæta og efla þjónustu við íbúa og ná fram betri nýtingu mannauðs.  
 • Halda áfram að virkja og þróa rafræna íbúagátt og stafræna þjónustu Akraneskaupstaðar með það að markmiði að auka upplýsingaflæði til bæjarbúa.
 • Setja í gang rafrænan „óskalista“ bæjarbúa varðandi verkefni sem þarf að leysa.
 • Kanna reglulega gæði þjónustunnar sem Akraneskaupstaður veitir, með íbúakönnunum.
 • Viðhalda faglegum vinnubrögðum í rekstri bæjarins og styðja við framfarir, m.a. í greiningarvinnu og stjórnun innkaupa.
 • Halda áfram að sýna ábyrgð með vandaðri áætlanagerð og öruggri fjármálastjórn.