ÍA fær heimaleik gegn toppliði Breiðabliks í 16-liða úrslitum Mjólkubikarkeppni karla



Karlalið ÍA mætir Breiðabliki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ 2022. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, fékk það verkefni í dag að draga mótherja ÍA og kom topplið Bestu deildar karla upp úr hattinum.

Leikurinn fram 26. eða 27. júní á heimavelli ÍA, Akranesvelli / Norðurálsvelli.

ÍA hefur 9 sinnum fagnað sigri í bikarkeppni KSÍ – en liðið lék til úrslita s.l. haust gegn Víkingi úr Reykjavík sem fagnaði sigri í þeim úrslitaleik á Laugardalsvelli.

Breiðablik hefur tvívegis leikið til úrslita í bikarkeppni KSÍ og landað einum titli, árið 2009, þegar liðið sigraði Fram 5-4 í vítaspyrnukeppni.

ÍA og Breiðablik mættust í Bestu deild karla þann 7. júní s.l. á Akranesvelli þar sem að Blikar höfðu mikla yfirburði og sigruðu 5-1.

16-liða úrslit Mjólkurbikars karla fara fram dagana 26. og 27. júní.

Leikir í 16-liða úrslitum eru eftirfarandi:

ÍA – Breiðablik

FH – ÍR

KA – Fram

Selfoss – Víkingur R.

Ægir – Fylkir

HK – Dalvík/Reynir

Njarðvík – KR

Kórdrengir – Afturelding