Nýr leikskóli í Skógarhverfi, Garðasel, verður ekki tekin í notkun í ágúst 2022 eins og stefnt var að – og ljóst er að töluverðar tafir verða á framkvæmdinni.
Þetta kemur fram í bréfi sem Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness og Valgerður Janusdóttir sviðsstjóri mennta – og frístundasviðs sendu á foreldra barna sem eru í Garðaseli.
Í bréfinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að hægt verði að hefja starfssemi í nýjum leikskóla um næstu áramót.
„Upphaflega var gert ráð fyrir að nýr leikskóli í Skógarhverfi, sem verður nýja Garðasel, yrði tekið í notkun í ágúst 2022. Þegar líða fór á framkvæmdartímann kom í ljós að ekki næðist að fullklára bygginguna fyrir þann tíma. Þá voru gerðar áætlanir um að hægt væri að opna tvær deildir í ágúst n.k. og þangað færu elstu börn leikskólans Garðasels og á þeim forsendum var inntaka nýrra barna í leikskólann fyrir komandi starfsár. Nú er komið í ljós að þær áætlanir standast ekki og þarf því að grípa til ráðstafana til þess að mæta húsnæðisþörf leikskólans,“ segir Sævar Freyr m.a. í bréfinu.
Ýmsir kostir hafa verið skoðaðir af hálfu bæjaryfirvalda og niðurstaðan er að elstu nemendur á Garðaseli fá aðstöðu í frístundarhúsnæði Brekkubæjarskóla – Þekjunni á efri hæðinni í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Skólastjórnendur Brekkubæjarskóla ætla að leysa húsnæðisvanda frístundastarfsins í Brekkubæjarskóla með tímabundinni lausn fram til áramóta.
Nánar í þessu bréfi.