Frábær árangur hjá Kristínu á Heimsmeistaramótinu í klassískum lyftingum



Kristín Þórhallsdóttir, íþróttamaður Akraness 2022 og 2021, náði frábærum árangri á Heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Suður-Afríku.

Hún varð önnnur í +84 kg. flokknum og fékk því silfurverðlaun – ásamt því að setja fjögur Evrópumet.

Hún tvíbætti eigið Evrópumet í hnébeygju þegar hún lyfti 230 kg. en hún lyfti einnig 222,5 kg. Kristín fékk silfurverðlaun í hnébeygjunni og met hennar er að sjálfsögðu Íslandsmet.

Í bekkpressu fékk hún einnig silfurverðlaun þegar hún lyfti 120 kg. og bætti hún eigin árangur um 5 kg.

Í lokagreininni, réttstöðulyftu, lyfti Kristín 215 kg. sem er Íslandsmet og hún bætti þann árangur næst síðustu lyftunni þar sem hún reif upp 230 kg. og dugði það í þriðja sætið í þessari grein. Kristín reyndi við 240 kg. í lokalyftunni en náði ekki að klára það verkefni þrátt fyrir góða tilraun.

Samanlagður árangur Kristínar var 580 kg. sem er Evrópumet. Amanda Lawrence frá Bandaríkjunum fagnaði Heimsmeistaratitlinum en hún lyfti samtals 615 kg.

Kristín fékk því þrenn silfurverðlaun, ein bronsverðlaun á mótinu. Hún bætti Evrópumet fjórum sinnum og hún setti jafnframt fjögur ný Íslandsmet.