ÍA og KR skildu jöfn í miklum markaleik í Bestu deild karla í knattspyrnu



Karlalið ÍA lék einn sinn besta leik í gær í Bestu deild Íslandsmótsins á þessu tímabili þegar liðið gerði jafntefli í miklum markaleik á heimavelli KR í Vesturbænum. ÍA hafði fyrir leikinn aðeins unnið einn leik í fyrstu átta umferðunum.

Eyþór Aron Wöhler kom ÍA yfir á 17. mínútu eftir fína sókn Skagamanna. Ægir Jarl Jónasson jafnaði metin fyrir KR á 27. mínútu. Staðan var 1-1 í hálfleik. Atli Sigurjónsson kom KR yfir strax í upphafi síðari hálfleiks – en Steinar Þorsteinsson jafnaði fyrir ÍA á 66. mínútu eftir frábæra sókn og samspil Skagamanna.

Eyþór Aron Wöhler kom ÍA yfir á ný á 74. mínútu og staðan 3-2 fyrir Skagamenn.

Lokakaflinn var afar spennandi og sóttu KR-ingar hart að marki ÍA. KR-ingar náðu að jafna metin á lokamínútu leiksins þar sem að varnarmaðurinn Alexander Davey fékk boltann í sig og skoraði sjálfsmark. Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, meiddist á höfði í þeim átökum og fékk stóran skurð á augabrún og lék nánast blindur á öðru auganu í uppbótartíma leiksins.

Þrátt fyrir jafnteflið var mikill munur á leik ÍA frá því í tapleiknum gegn Keflavík á Akranesi í byrjun júní. Batamerki á leik liðsins voru töluverð og það verður áhugavert að fylgjast með þróun mála í næstu leikjum. Næsti leikur ÍA í Bestu deild Íslandsmótsins er gegn FH á Akranesvelli þann 21. júní.

ÍA er með 7 stig eftir 9 umferðir og er liðið í 10. sæti deildarinnar. Leiknir Reykjavík og ÍBV eru í tveimur neðstu sætunum – en bæði lið eru með 3 stig en Leiknir á eftir að leika sinn leik í 9. umferðinni.