Hallgrímur Ólafsson eða „Halli Melló“ var í gær útnefndur „Bæjarlistamaður Akraness árið 2022.“
Tilkynnt var um valið í gær á hátíðardagskrá sem fram fór á Akratorgi í tilefni 17. júní – Þjóðhátíðardags Íslendinga. Hér fyrir neðan er texti frá Akraneskaupstað vegna útnefningarinnar.
Hallgrímur er fæddur og uppalinn á Akranesi, hann gekk í Grundaskóla á æskuárunum og fór þaðan í FVA en var rekinn þaðan fyrir einstaka hæfileika í að eyða tíma í skipulagningu viðburða nemendafélagsins á skólatíma.
Þrátt fyrir brösótt gengi í FVA lauk hann prófi í leiklist frá listaháskóla Íslands 2007 og vann síðan með leikfélagi Akureyrar 2007-2008 og í Borgarleikhúsinu 2008-2014.
Hallgrímur hefur síðan starfað með Þjóðleikhúsinu frá árinu 2014.
Á leikferlinum hefur hann leikið í hátt í 40 leiksýningum frá útskrift en einnig í ótal sjónvarpsþáttum og bíómyndum og fengið tilnefningu til Eddunnar fyrir leik sinn í Gullregni.
Sem tónlistarmaður hefur Hallgrímur komið fram undir listamannsnafninu Halli Melló og honum til heiðurs hefur Leiklistaklúbbur fjölbrautaskólans fengið nafnið „Melló“ þar sem Hallgrímur hefur margoft sinnt leikstjórn m.a. á sýningunum Draumnum, Grease, Gauragangi og fleiri sýningum.
Hallgrímur er stoltur Skagamaður og hefur alltaf verið tilbúinn að koma í sinn gamla heimabæ til að sinna ýmsum verkefnum s.s að vera viðburðastjóri Írskra daga og að koma fram við hin ýmsu tækifæri.
Það er óhætt að segja að hann hafi lagt sitt á vogaskálarnar fyrir menningu og list á Akranesi og er því vel að þessari nafnbót kominn.
Hallgrímur Ólafsson – innilegar hamingjuóskir með nafnbótina Bæjarlistamaður Akraness 2022.
Eftirtaldir listamenn hafa fengið titilinn bæjarlistamaður Akraness:
2022: Hallgrímur Ólafsson, leikari og tónlistarmaður.
2021: Valgerður Jónsdóttir, tónlistarkona.
2020: Tinna Rós Steindórsdóttir.
2019: Bjarni Skúli Ketilsson, myndlistamaður
2018: Eðvarð Lárusson, tónlistamaður.
2017: Kolbrún S. Kjarval leirlistakona
2016: Slitnir strengir, þjóðlagasveit
2015: Gyða L. Jónsdóttir Wells myndhöggvari
2014: Erna Hafnes myndlistakona
2013: Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur
2012: Sveinn Arnar Sæmundsson orgelleikari
2011: Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona
2010: Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður
2005-2009: Friðþjófur Helgason ljósmyndari (eitt kjörtímabil)
2004: Bragi Þórðarson bókaútgefandi og rithöfundur
2003: Enginn hlaut nafnbótina þetta árið en menningarmála- og safnanefnd ákvað að nýta starfsstyrk fyrir menningarviku í október (fyrstu Vökudagarnir)
2002: Kristján Kristjánsson rithöfundur og bókaútgefandi
2001: Smári Vífilsson tenórsöngvari
1999-2000: Enginn hlaut nafnbótina þessi ár en starfslaun bæjarlistamanna var varið til að styrkja listamenn á Akranesi sem gerðu listaverk tengd viðfangsefninu Sjávarlist
1998: Kristín Steinsdóttir rithöfundur
1997: Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður
1996: Philippe Ricart handverksmaður
1994-1995: Guttormur Jónsson högglistamaður
1993: Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður
1992: Hreinn Elíasson myndlistarmaður