Niðurstöður hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulagi á Breið verða kynntar í Hafbjargarhúsinu að Breiðargötu 2C á Akranesi mánudaginn 27. júní.
Þar verða niðurstöður dómnefndar kynntar en alls bárust 24 tillögur í þessari keppni sem var öllum opin.
Breið þróunarfélag f.h. Brim hf og Akraneskaupsstaður í samstarfi við Arkitektafélag Íslands stóðu saman að þessari hugmyndasamkeppni um skipulag Breiðar á Akranesi.
Markmiðið var að fá fagaðila til að leggja fram tillögur sem eru í samræmi við þá framtíðarsýn að svæðið verði íbúðabyggð fyrir ólíka aldurshópa í bland við atvinnusköpun með áherslu á hátækni, nýsköpun og sjálfbærni.
Á Breiðinni eru lóðir og fasteignir sem áður voru notaðar fyrir útgerð og fiskvinnslu, en breytingar í atvinnuháttum opna nú á einstakt tækifæri til þróunar og uppbyggingar í takt við breytta tíma og nýja framtíðarsýn.
Samkeppnissvæðið er einstakt hvað varðar staðsetningu, sögu, menningu, fjörugerð og fuglalíf. Breiðin tekur til vestasta hluta Akraness í nálægð hafnar og miðbæjar, en um er að ræða alls um 16 hektara svæði, aðallega í eigu Brims hf. og Akraneskaupstaðar.
Guðmundur Kristjánsson, fulltrúi Brims og formaður dómnefndar mun kynna niðurstöðurnar á fundinum. Með honum í dómnefnd eru:
Inga Jóna Friðgeirsdóttir, fulltrúi Brims
Sævar Freyr Þráinsson, fulltrúi Akraneskaupstaðar
Páll Hjaltason, arkitekt, FAÍ
Heba Hertervig, arkitekt, FAÍ
Helgi Bollason Thoroddsen, arkitekt, FAÍ
Ólafur Melsted, landslagsarkitekt, FÍLA