Íslandsmeistaratitill á Skagann – U-18 ára lið Leynis landaði gullinu á Hellu



Golfklúbburinn Leynir frá Akranesi fagnaði sigri á Íslandsmóti golfklúbba 18 ára og yngri í drengjaflokki.

Leynir sigraði Golfklúbb Mosfellsbæjar, GM, í úrslitaleiknum sem fram fór í dag á Strandarvelli á Hellu.

Frá vinstri: Nói Claxton, Bragi Friðrik Bjarnason, Kári Kristvinsson, Tristan Freyr Traustason, Elsa Maren Steinarsdóttir, Björn Viktor Viktorsson, liðsstjóri. Mynd/golf.is/BEG

Leynir sigraði GM í úrslitaleiknum 2/1 en þessi lið enduðu í fimmta og sjötta sæti í höggleikskeppninni – tveimur neðstu sætunum og komu því töluvert á óvart í riðlakeppninni þar sem að keppt var í holukeppni.

Elsa Maren Steinarsdóttir lék stórt hlutverk í liði Leynis en hún var ein af þremur stúlkum sem kepptu með drengjaliðum í þessum aldursflokki.

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, GKG, sigraði Golfklúbb Reykjavíkur, GR, í leiknum um þriðja sætið.

Alls tóku sex klúbbar þátt og endaði Golfklúbbur Selfoss, GOS, í fimmta sæti og Golfklúbburinn Keilir varð í sjötta sæti.

Leikinn var höggleikur í fyrstu umferð til þess að raða liðum niður í riðla fyrir holukeppnina. Þar endaði lið Leynis í fimmta sæti en Akurnesingar unna báða leikina í riðlakeppninni gegn GR og GK, og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum.

Lið GM endaði í sjötta og neðsta sæti í höggleikskeppninni en liðið vann báða leikina í riðlinum, fyrst gegn GKG og gegn GOS í 2. umferð.