Baðlón, heilsuhótel og fjölbreytt íbúðabyggð í áhugaverðri vinningstillögu um framtíð Breiðarinnar



Í dag voru kynntar niðurstöður úr veglegri hugmyndasamkeppni um framtíð Breiðarinnar á Akranesi en alls bárust 24 tillögur frá yfir 50 aðilum, að miklum meirihluta frá alþjóðlegum arkitekta-, hönnunar- og skipulagsstofum.

Verðlaunatillögurnar voru kynntar í Hafbjargarhúsinu að Breiðargötu – og í sumar geta allir sem hafa áhuga kynnt sér tillögurnar á sýningunni sem verður opin almenningi næstu vikurnar.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og formaður dómnefndar greindi frá niðurstöðunum.

Breiðin Þróunarfélag efndi til þessarar samkeppni með að markmiði að byggja upp Breiðina og styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Akranesi til framtíðar.

Fyrstu verðlaun eru 15 milljónir króna en verðlaunafé alls nemur 25 milljónum króna.

Lifand samfélag við sjó sem unnin var af Arkþing / Nordic – Office of Architecture, og Eflu stóð uppi sem sigurvegari í þessari hugmyndasamkeppni. Í umsögn dómnefndar segir m.a.

„Lifandi samfélag við sjó er látlaus og skýr tillaga sem leggur til blandaða uppbyggingu á Breiðinni. Atvinnusvæði er byggt upp ofan við Steinsvör og núverandi byggingar eru endurnýttar. Útisvæði við vörina virkar sannfærandi með veitingasölu og annarri starfsemi. Íbúðabyggðin er fjölbreytt en þróa mætti húsgerðir enn frekar með tilliti til þéttleika og skjólmyndunar. Strandstígur liggur umhverfis nýju byggðina og tengist fjölbreyttri uppbyggingu og afþreyingu við sjóinn. Annar stígur liðast í gegnum hverfið frá norðri til suðurs og tengist leiksvæðum, gróðurhúsi og veitingatorgi. Staðsetning hótels og baðlóns sunnar lega á nesinu virkjar það svæði vel og býður upp á spennandi þróunarmöguleika. Styrkur tillögunnar er einfaldleiki með skýru samgönguneti og góðum tengingum við sjóinn. Staðsetning allra lykilþátta er skynsamleg og virðist áreynslulaus. Tillagan er jarðbundin og raunsæ og bíður upp á mikla möguleika til frekar þróunar. Mannvirki við Skarfavör og Steinsvör sem ganga í sjó fram þarf að skoða með tilliti til ágangs sjávar.“

Jóhanna Helgadóttir arkitekt og skipulagsfræðingur hjá Arkþing / Nordic – Office of Architecture sagði að það væri sérstaklega spennandi að takast á við þetta krefjandi verkefni og áskorarnirnar sem fylgja svæðinu.

„Á Breiðinni eru fjölbreytt og spennandi tækifæri til uppbyggingar þar sem að borin er virðing fyrir staðháttum, sérstöðu, sögu og náttúru – um leið og sótt er framávið með sjálfbærni að leiðarljósi. Markmið okkar var að skapa eftirsóknarvert umhverfi sem styður við breytta notkun svæðisins sem miðstöð nýsköpunar og framþróunar á Akranesi. Og að skapa eftirsóknarverðan stað fyrir heimamenn, íbúa og gesti með auknum tækifærum til hreyfingar, útivistar og vellíðan. Ásamt því taka ríkt tillit til náttúru og minja,“ sagði Jóhanna m.a. í ræðu sinni.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, flutti einnig ávarp en hér fyrir neðan má sjá og heyra ræðurnar.

Önnur verðlaun hlaut tillaga án titils frá finnsku arkitektastofunni Muuan með aðstoð frá Arkitektur Verkfræði Hönnun og þriðju verðlaun Breiðin til framtíðan frá hollensku hönnunarstofunni Super World VOF. Þá hlutu tvær tillögur viðurkenningar en þær þóttu áhugaverðar. Önnur tillagan var Ábreiðan frá íslensku arkitektastofunni HJARK og portúgölsku hönnunarstofunni Sastudio en hin kallast Akranes – Atlandshafs-rannsóknarmiðstöð fyrir endurnýjun menningar en höfundar hennar eru danska arkitektastofan Atelier for Byers Rum í samvinnu við DSA ARK STUDIO í Danmörku og Dögg Design á Íslandi.

Dómnefnd skipuðu þau Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, formaður, Inga Jóna Friðgeirsdóttir, stjórnarmaður í Breiðinni, Páll Hjaltason, arkitekt, FAÍ, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, Helgi Bollason Thoroddsen, arkitekt, FAÍ, Ólafur Melsted, landslagsarkitekt, FÍLA og Heba Hertervig, arkitekt, FAÍ.