Knattspyrnubærinn: 100 ára knattspyrnusaga Akraness




Í haust kemur út bókin Knattspyrnubærinn: 100 ára knattspyrnusaga Akraness eftir sagnfræðinginn og Skagamanninn Björn Þór Björnsson.

Í bókinni verður saga knattspyrnunnar rakin allt frá því Knattspyrnufélagið Kári, fyrsta knattspyrnufélag Akraness, var stofnað árið 1922 og allt til dagsins í dag.

Um er að ræða veglegt rit í stóru broti prýtt fjölda mynda sem tengist knattspyrnusögu Akraness. Þetta kemur fram í tilkynningu frá útgefanda bókarinnar, Bókaútgáfunnar Hóla.

Í bókinni segir frá sigrum og sorgum knattspyrnunnar.

Titlarnir eru margir og sögurnar enn fleiri. Frá útroðnum hrútspungum sem notaðir voru sem boltar, baráttu Kára og KA, gullöldum, úrslitaleikjum á Laugardalsvelli og í Indónesíu, yfirvofandi gjaldþroti og bæjarsálinni sem sló í takt við fótboltann. Fjöldi Skagamanna koma við sögu og atvik sem ylja Skagamönnum enn um hjartarætur.

Aftast í bókinni verða baráttukveðjur til knattspyrnufólks á Akranesi og þar geta áskrifendur fengið nafn sitt birt.

Það er aðstandendum bókarinnar mikið í mun að sá listi verði sem lengstur og geta menn skráð sig fyrir áskrift að bókinni með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected] eða í síma 692-8508.

Vinsamlegast takið fram fullt nafn (fyrir hverja bók geta verið fleiri en eitt nafn, t.d. hjón og skulu þá allar baráttukveðjur tilgreindar), kennitölu og heimilsfang greiðanda.

Verð bókarinnar verður kr. 7.500 og greiðist fyrirfram.

Í von um jákvæð viðbrögð! Áfram Skagamenn!

Bikarmeistarar árið 1989. Jónína Víglundsdóttir lyftir bikarnum. Mynd/Ljósmyndasafn Akraness.

Ríkharður Jónsson í leik með ÍA gegn Fram árið 1965. Björn Lárusson er Skagamaðurinn sem sést fyrir aftan hann. Mynd/Ljósmyndasafn Akraness.