Einar Margeir náði frábærum árangri á EM unglinga í Rúmeníu



Skagamaðurinn, Einar Margeir Ágústsson, náði frábærum árangri á Evrópumeistaramóti unglinga um s.l. helgi. Alls tóku 494 unglingar þátt og komu þeir frá 42 þjóðum.

Einar Margeir, sem er 17 ára, setti Íslandsmet og endaði í 15. sæti á mótinu sem fram fór í Búkarest í Rúmeníu.

Í 100 m. bringusundi setti Einar Íslandsmet í unglingaflokki þegar hann bætti sinn besta tíma um rúma sekúndu og synti á tímanum 1.03.45, gamla metið átti Árni Már Árnason, 1.04.07 frá árinu 2005.

Þessi tími skilaði Einari Margeiri 12. besta tímanum í undanrásum og synti hann aftur í 16 manna undanúrslitum og þar synti hann á tímanum 1.03.77 og hafnaði hann í 15. sæti.

Einar er á yngra árinu á EMU, og aðeins 3 á sama aldri á EMU syntu hraðar en Einar.

Einar bætti sig líka í 200 m. bringusundi um rúma sekúndu og synti á tímanum 2.23.45 og það skilaði honum 34 sæti. Hann hefur bætt sig um 9 sekúndur frá því í janúar í þessari grein.

Í 50 m. bringusundi synti hann við sinn besta tíma 29.19 og endaði í 23. sæti og aðeins 4 á sama aldri og Einar syntu greinina hraðar.