ÍA leikur á ný í næst efstu deild í körfunni – nýr þjálfari tekur við liðinuKarlalið ÍA mun leika í næst efstu deild Íslandsmótsins veturinn 2022-2023 – þrátt fyrir að hafa fallið úr deildinni í vor.

ÍA mun taka sæti Vestra frá Ísafirði, sem óskaði nýverið eftir því við mótanefnd KKÍ að fá að fara niður í 2. deild karla. Þetta kemur fram á vefnum karfan.is.

Vestri lék í efstu deild á síðustu leiktíð og féll úr deildinni ásamt liði Þórs frá Akureyri.

Mótanefnd KKÍ leitaði því til ÍA, sem féll úr 1. deild karla á nýliðinni leiktíð og bauð þeim að taka sæti í deildinni að nýju, sem þeir þáðu.

ÍA mun því keppa í 1. deild karla í stað Vestra á komandi leiktíð, og Vestri tekur sæti ÍA í 2. deild karla fyrir keppnistímabilið 2022-2023.

Nebosja Knezevic var nýverið ráðinn sem þjálfari meistaraflokks karla og sem þjálfari hjá yngri flokkum ÍA. Hann var áður við slík störf í Borgarnesi og var þjálfari kvennaliðs Skallagríms sem var lagt niður um mitt síðasta tímabil. Hann var áður þjálfari hjá Vestra á Ísafirði um fimm ára skeið.