Tvö stór vegglistaverk eru í vinnslu á Akranesi og er verkefnið tengt 80 ára afmæli Akraneskaupstaðar. Alls er gert ráð fyrir að sex slík vegglistaverk verði máluð í sumar og eru þessi tvö þau fyrstu í röðinni.
Um er að ræða samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar, listamanna, Elkem, Faxaflóahafna, Norðuráls, Upprisu og Húsasmiðjunnar.
Á gafli Hafbjargarhússins á Breiðinni er þorskur í aðalhlutverki. Bæjarlistamaðurinn Tinna Royal hannaði verkið og er það unnið af ungu fólki úr vinnuskóla Akraness. Jón Sverrisson garðyrkjustjóri Akraness stýrir því verkefni.
Á gafli „Lesbókarinnar“ við Kirkjubraut við Akratorg er verk í vinnslu eftir Arnór Kára, sem er ungur maður úr Reykjavík. Verkið eftir Árnór Kára er tignarlegur fugl og kannski fær húsið nýtt nafn í framtíðinni, fuglahúsið?
Verkin eru gjafir ofantalinna fyrirtækja á Akranesi til Akurnesinga.
Verkið á Hafbjargarhúsinu er gjöf Húsasmiðjunnar til Akurnesinga og fuglamyndin á Kirkjubrautinni er gjöf frá Elkem.
Ólafur Páll Gunnarsson stýrir þessu verkefni en hann hefur séð um að hafa samband við listafólkið, velja veggina þar sem að verkin verða sett upp og fá leyfi fyrir því – og ekki síst að fá styrktaraðila með í verkefnið.