Bráðum byrjar skólinn!



Aðsend grein frá Steinunni Ingu Óttarsdóttur, skólameistara FVA:

Í FVA hefst skólaárið með því að endurbætt aðstaða fyrir starfsbraut skólans og náms- og starfsráðgjafa verður tekin í notkun. Framkvæmdir hafa staðið yfir í tæpt ár og er mikil tilhlökkun með nýju rýmin. Starfsbraut er með tvær smekklega innréttaðar kennslustofur með öllum búnaði og glænýtt salerni sniðið að þörfum fólks með fötlun.

Deildarstjóri starfsbrautar er Arndís Halla Guðmundsdóttir. Náms- og starfsráðgjafar skólans, Guðrún S. Guðmundsdóttir og Bryndís Gylfadóttir, og Íris Björg Jónsdóttir skólahjúkrunarfræðingur eru að vonum spenntar að fá skrifstofurnar sínar aftur en bæði hafa þær og starfsbrautarnemendur og -kennarar verið á hrakhólum meðan á endurbótunum stóð. Auk þess bætist nýtt fundarherbergi við sem hefur hlotið nafnið Blaðran en á 2. hæð er stærra fundarherbergi sem heitir Toppurinn. Skrifstofur náms- og starfsráðgjafa fengu síðan heitin Bjarg og Skjól í nafnasamkeppni sem efnt var til í vor og áttu kennarar og nemendur fulltrúa í dómnefndinni.

Kennt verður skv. nýrri námskrá næsta vetur hjá þeim sem hefja nám núna í ágúst. Meðal nýjunga í námskránni er Lífsleikni sem nær yfir fyrstu tvær annirnar í náminu þar sem fjallað er allt það hagnýta sem við þurfum að vita. Kynjafræði er nú kjarnagrein en það er í anda gilda skólans; jafnréttis, virðingar og fjölbreytileika. Þá vinna allir bóknámsnemendur lokaverkefni á þriðja þrepi um viðfangsefni á tilteknu námssviði/sérgrein sem tekið er fræðilegum tökum, kynnt og unnið er með leiðsagnarkennara. Þá hafa skóla- og heimavistarreglur verið uppfærðar. Jónína Halla Víglundsdóttir, áfangastjóri, veitti vinnuhópi kennara um nýja námskrá forstöðu sl vetur. Námskráin var einnig til umfjöllunar með hópi nemenda sem lögðu margt gott til og síðan borin undir skólanefnd. Hana er að finna er á vef skólans.

Í sumar var lagður nýr gólfdúkur á hluta neðri hæðar skólans og stigann upp í B-álmu sem er til mikilla bóta. Þá var lýsing víða bætt og málaðar tvær skrifstofur á 2. hæð. Einnig voru settar upp vatnsvélar, m.a. við aðalinnganginn, svo nemendur hefðu greiðan aðgang að vatni en hver og einn þarf að koma með sitt ílát.

Tiltekt fer jafnan fram á vorin í FVA og skilja kennarar alltaf vel við hver á sínu vinnusvæði áður en haldið er í sumarleyfi. Allmiklu gömlu og ónotuðu dóti sem hafði safnast upp í áratugi hér og þar hefur nú verið fargað. Þótt framkvæmdum sé lokið í bili af hálfu Ríkiseigna er sitthvað sem þarfnast umhyggju í húsnæðinu og er komið á dagskrá á næstu árum, ss. að skipta um gólfefni í sal skólans og mála allar kennslustofur. 

Við erum spennt að byrja, segir skólameistari, nýnemar mæta 17. ágúst kl 10 og kennsla hefst þann 18. skv. stundaskrá.