Þeir eru ekki margir sem skora sitt fyrsta mark í efstu deild áður en þeir fá bílprófið en Skagamaðurinn Haukur Andri Haraldsson komst í þann hóp í gær. Hann náði þó ekki að slá fjölskyldumetið.
Haukur Andri Haraldsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir ÍA í efstu deild í gær og er hann nú í fámennum hópi leikmanna sem hafa skorað fyrir ÍA fyrir 17 ára afmælið. Haukur Andri heldur upp á 17 ára afmælið á fimmtudaginn í þessari viku. Haraldur Ingólfsson, faðir Hauks Andra, var yngri en sonurinn þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir ÍA – og á pabbinn enn fjölskyldumetið eins og kemur fram í þessari samantekt á visir.is.
Arnar Bergmann Gunnlaugsson, er yngsti markaskorari ÍA í mfl. karla en hann var rétt rúmlega 16 ára þegar hann skoraði í 3-1 sigri gegn Keflavík árið 1989. Þetta var fyrsti leikur Arnars í efstu deild. Bjarki Bergmann Gunnlaugsson, tvíburabróðir Arnars, er sá næst yngsti en hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir ÍA í september sama ár – þá rúmlega 16 og hálfs árs.