Sylvía jafnaði sinn besta árangur á „Fred Flintstone“ leiðinni á Hnappavöllum

Sylvía Þórðardóttir hefur á undanförnum misserum skipað sér í fremstu röð á Íslandi í klifuríþróttinni. Sylvía jafnaði sinn besta árangur nýverið þegar hún náði að klifra leiðina sem kölluð er „Fred Flintstone“ í Miðskjóli á Hnappavöllum. Skagakonan er þar með þriðja konan sem nær að klifra þessa leið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Klifurfélagi ÍA.

Þessi leið er í styrkleikagráðuinni 7b og er þetta í annað sinn sem Sylvía nær að klifra leið í þessum styrkleikaflokki. Það gerði hún þegar hún var aðeins fjórtán ára þar sem hún fór upp leiðina „Leikið á Alls Oddi“.

„Fred Flintstone“ leiðin hefst á erfiðu klifri upp létt yfirhangandi vegg, á tæpum tökum og krefst mikils styrks og jafnvægis. Sylvía eyddi góðum tíma í að fínstilla allar hreyfingar til þess að komast gegnum erfiðasta part leiðarinnar, og að honum loknum kláraði hún leiðina örugglega upp í topp.

Sylvía undirbýr sig nú undir þátttöku á Norðurlandamótinu í línuklifri sem fram fer 24. september í Helsinki, en frá Klifurfélagi ÍA fara einnig þær Þórkatla Þyrí Sturludóttir og Beníta Líf Pálsdóttir, sem keppa í B-flokki stúlkna.

Hér er myndband frá því þegar Sylvía klifraði „Fred Flintstone“ leiðina.