Pistill: Hver á að gæta mín ?

Aðsend grein frá Ingunni Ríkharðsdóttur:

Þessi fyrirsögn vísar til þess hver beri ábyrgð á velferð og hagsmunum ungra barna í leikskólum þar sem sífellt er verið að þrengja að, fjölga börnum og starfsfólki í skólum sem ekki hafa rými til stækkunar og til að mæta auknum kröfum. Staðan er sú að í dag ætti að vera að hugsa um fækkun barna og að búa til meira rými fyrir þau og gera starfsemi leikskóla þannig úr garði að þeir sem þar eru við leik og störf fái notið sín.


Í áraraðir hafa verið gerðar breytingar á lögum og reglugerðum um starfsemi leikskóla sem hafa haft þær afleiðingar að börnum fjölgar stöðugt og rými þeirra skerðist – fyrir utan þá undarlegu reiknireglu að starfsfólk taki ekkert pláss í rýmum barna.

Flestir leikskólar glíma við alltof lítið rými og það skerðir gæði starfsins fyrir börn og líka starfsfólk. Í dag er engin reglugerð til um rými barna en því ákvæði var kippt út með breytingu á reglugerð árið 2008. Niðurstaða þeirrar breytingar varð mikil fjölgun barna í leikskólum og minna rými.

Nú á enn að herða ólina og fyrir liggur í ráðuneytinu breytingar á lögum um ákvörðunarvald um fjölda barna í leikskólum. Það ákvörðunarvald hefur verið í höndum skólastjóra og rekstraraðila, þ.e.a.s skólastjóri leggur til hver fjöldi barna ætti að vera hverju sinni miðað við aldursamsetningu, sérþarfir og rými og rekstraraðili vinnur svo með það. Nú á að færa þetta vald alfarið í hendur rekstraraðila sem geta þar með fjölgað börnum, tímabundið eða ekki, til að losa biðlista. Í dag er verið að taka inn ung ómálga börn í stórum hópum til að uppfylla kosningaloforð sveitarstjórna og hagsmunir barna munu trúlegast víkja, oftar en ekki, þegar pressan í innritun ber skynsemina ofurliði. Hagsmunir barna verður afgangstærð – tímabundið telur fólk, en reynslan sýnir okkur að það sem átti að verða tímabundið stendur til margra ára óbreytt og jafnvel hallar enn frekar á.

Það er dapurlegt að upplifa aftur og aftur hvernig starfsemi leikskóla verður að skiptimynt í pólitískum leik þegar loforð eru gefin sem ekki tekst að uppfylla nema með alls konar reddingum – á kostnað barna og starfsfólks, gæða í starfsemi og skólaþróunar. Niðurstaða á afgreiðslu þessa frumvarps gæti verið upphafið að endalokum faglegs starfs í leikskólum og í samráðsgátt um frumvarpið hafa komið inn fljöldinn allur af athugasemdum um mikilvægi þess að stoppa þessa vegferð. Hvort það dugi til verður tíminn að leiða í ljós.

Fáranleiki þess að börnum í leikskólum sé ekki tryggt lágmarksrými mætti skoða út frá reglugerðum t.d. um fjós og hesthús en þau þurfa að uppfylla lágmarksrými fyrir hvert dýr. Engum dettur í hug í dag að þrengja að rýmum á hjúkrunarheimilum þegar skortur er mikill – sem betur fer.

Við ákvarðanir í starfsemi leikskóla á alltaf að hafa velferð barna í huga, engan afslátt á að gefa þar. Foreldrar og starfsfólk leikskóla eiga að standa vörð um gæði leikskólastarfsins og aðbúnað barna hverju sinni – það er þeirri frumskylda.

Leikskólar eru líka vinnustaðir sem hafa undanfarin ár gefið eftir í gæðum þar sem þrengsli og aðstöðuleysi hrjáir alltof marga þeirra. Sífelldar breytingar á verkefnum og auknar kröfur hafa valdið miklu álagi og enn er bara bætt í.

Okkur ber skylda til að búa litlum börnum þau bestu skilyrði sem völ er á og starfsfólki ákjósanlegar og eftirsóttar vinnuaðstæður. Gætum okkar í þessari kappsfullu vegferð sem óraunhæf og stundum galin loforð teyma okkur út í.

Fórnum ekki hagmunum barna ! Gætum þeirra -það er okkar ábyrgð.

Við ákvarðanir í starfsemi leikskóla á alltaf að hafa velferð barna í huga, engan afslátt á að gefa þar. Foreldrar og starfsfólk leikskóla eiga að standa vörð um gæði leikskólastarfsins og aðbúnað barna hverju sinni – það er þeirri frumskylda.

Ingunn Ríkharðsdóttir skrifar.