Pistill: Þetta eru víst svikin loforð!



Aðsend grein frá Bjarnheiði Hallsdóttur:

Það mætti halda að innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi vitað af því þegar hann mætti í viðtal í Bítið á Bylgjunni í gær, að Elísabet Englandsdrottning myndi kveðja þessa jarðvist síðar um daginn. Það þykir alla jafna hentugt að koma með umdeild og erfið mál fram í dagsljósið, þegar vitað er að þau munu falla í skuggann af öðrum, sem taka meira rými í fjölmiðlum.

Það liggur nú alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin áformar að hefja gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum á nýjan leik, árið 2023. Þessi gjaldtaka á að fjármagna byggingu nýrra Hvalfjarðarganga. Á hversu löngum tíma liggur ekki fyrir. Gjaldtaka mun síðan að öllum líkindum halda áfram, bæði í nýju og gömlu göngunum.

Það eru fimm önnur verkefni, sem einnig á að fjármagna með gjaldtöku á notendur og það eru Sundabraut, Ölfusárbrú og nýir vegir  um Mýrdal, Öxi og Hornafjarðarfljót. Hvort að gjaldtaka fyrir þessar framkvæmdir framtíðarinnar á sömuleiðis að hefjast árið 2023 er óljóst – það er hvort það standi til að rukka vegfarendur fyrir að aka í huganum yfir Sundabraut sem enn er bara skrifuð í skýin, yfir óbyggða brú eða um vegspotta sem enn liggja bara á teikniborðinu. Ekkert er minnst á gjaldtöku í öðrum göngum landsins, sem þó voru reist fyrir almannafé, eða með ríkisábyrgðum og ljóst er, að munu aldrei standa undir sér fjárhagslega. 

Innviðaráðherra segir fyrirhugaða gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum ekki fela í sér svikin loforð. Við sem munum nokkra áratugi aftur í tímann vitum að það var ávallt ætlunin að Hvalfjarðargöng yrðu gjaldfrjáls þegar framkvæmdin væri að fullu greidd upp og göngin afhent ríkinu á silfurfati. Nú á að breyta um aðferðafræði. Stjórnvöld eru í bullandi vandræðum með fjármögnun samgöngumannvirkja, þar sem skattar og gjöld af eldsneyti munu fyrirsjáanlega skreppa saman með orkuskiptum bílaflotans. Þá er borðleggjandi að hefja gjaldtöku, þar sem líklegt er að hún verði skilvirk og ábatasöm.

Kannski verður raunin sú að við Skagamenn þurfum á ferðum okkar til og frá höfuðborginni frá og með næsta ári að greiða fyrirfram fyrir tvær þjóðhagslega hagkvæmar vegaframkvæmdir, sem sum okkar munu sjaldan eða aldrei koma til með að nota?

Stóra málið í þessu er það að Hvalfjarðargöng eru eina samgöngumannvirkið á landinu sem hefur verið að fullu fjármagnað með notendagjöldum. Því er algjörlega fáránlegt og mjög ósanngjarnt að taka upp gjaldtöku einmitt þar. Við erum búin að borga fyrir þessi göng og það er alls ekki til of mikils ætlast að ríkið reki göngin orðalaust eins og önnur jarðgöng og samgöngumannvirki.  

Við vitum öll að fólk og fyrirtæki á Akranesi og annars staðar á Vesturlandi hafa tekið ákvarðanir sem varða búsetu, atvinnu, nám og fyrirtækjarekstur – þar sem gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng hafa komið mikið við sögu. Gjaldtaka í Hvalfjarðargöngum á nýjan leik er því algjör forsendubrestur og svik við þetta fólk. 

Þessi nýja „aðferðafræði“ innviðaráðherra er að mínu mati algjörlega út í hött. Það að ætla að hafa vegfarendur dagsins í dag að féþúfu fyrir framkvæmdir framtíðarinnar er arfavitlaust. Eru ekki annars allir til í að borga í dag fyrir köku sem þeir fá kannski að éta eftir 10 ár?

Ef tekin verður ákvörðun um að byggja ný Hvalfjarðargöng, þá hljótum við að krefjast þess að þau verði fjármögnuð á annan hátt en fyrirhugað er. Hér verðum við Skagamenn og Vestlendingar að standa í lappirnar,  halda hagsmunum okkar á lofti og mótmæla þessum áformum kröftuglega! 

Þessi nýja „aðferðafræði“ innviðaráðherra er að mínu mati algjörlega út í hött. Það að ætla að hafa vegfarendur dagsins í dag að féþúfu fyrir framkvæmdir framtíðarinnar er arfavitlaust. Eru ekki annars allir til í að borga í dag fyrir köku sem þeir fá kannski að éta eftir 10 ár?

Ef tekin verður ákvörðun um að byggja ný Hvalfjarðargöng, þá hljótum við að krefjast þess að þau verði fjármögnuð á annan hátt en fyrirhugað er. Hér verðum við Skagamenn og Vestlendingar að standa í lappirnar,  halda hagsmunum okkar á lofti og mótmæla þessum áformum kröftuglega! 

Bjarnheiður Hallsdóttir.