Frábær lokakafli tryggði ÍA fyrsta sigur tímabilsins í körfunni



Skagamenn gerðu góða ferð í gær á Akureyri þar sem að ÍA lék gegn liði Þórs í næst efstu deild Íslandsmóts karla í körfuknattleik.

Þetta var annar leikur ÍA á tímabilinu og landaði liðið sínum fyrsta sigri á tímabilinu með frábærum lokaleikhluta í 77-74 sigri.

Tölfræði leiksins er hér:

ÍA tapaði naumlega með fimm stiga mun gegn liði Sindra frá Höfn í Hornafirði í 1. umferð Íslandsmótsins, 80-75. Nánar hér.

Sigurinn í gær gefur liðinu byr undir báða vængi fyrir komandi leiki. Lið Þórs hefur á undanförnum árum leikið í efstu deild en liðið féll s.l. vor úr efstu deild.

Staðan var 20-15 fyrir Þór eftir 1. leikhluta en ÍA var með yfirhöndina í hálfleik, 45-41.

Þórsarar náðu yfirhöndinni á ný með flottum þriðja leikhluta þar sem að liðið skoraði 24 stig gegn 10 stigum ÍA, og staðan var 65-55.

Skagamenn hertu sig í varnarleiknum þegar mest á reyndi og náðu Þórsarar aðeins að skora 9 stig í lokaleikhlutanum og Skagamenn tryggðu sér þriggja stiga sigur, 77-74.

Jalen David Dupree skoraði flest stig fyrir ÍA eða 24, auk þess sem hann tók 18 fráköst. Lucien Thomas Christofis skoraði 19 stig fyrir ÍA, ásamt því að taka 11 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Anders Gabriel P. Adersteg var með 18 stig og 13 fráköst.